Erlent

Örlög Evrópu og alls heimsins eru undir

Birta Björnsdóttir skrifar
Fundur leiðtoganna fór fram í Minsk í Hvíta-Rússlandi, en þetta var í fyrsta sinn sem þeir hittust augliti til auglitis síðan í byrjun júní.

Catherine Ashton, utanríkis- og öryggismálastjóri Evrópusambandsins, var einnig viðstödd fundinn ásamt forsetum Hvíta-Rússlands og Kazakstan.



Fyrirfram var ekki talið að fundurin myndi skila miklu, þó vissulega væri hann skref í rétta átt í deilu landanna. Forseti Úkraínu sagði fundinn þó afar mikilvægan.

„Í dag verða örlög Evrópu og alls heimsins ráðin hér í Minsk. Slíkir möguleikar felast í fundi okkar. Saman eigum við að finna hina einu réttu lausn sem friður á öllu meginlandinu veltur á. Ekkert minna. Fyrsta skrefið til að stuðla að jafnvægi í Úkraínu er að tryggja skilvirkt eftirlit á landamærum Úkraínu og Rússlands og það er lykilatriði hvað varðar fullveldisrétt og sjálfstæði landsins,“ sagði Poroshenko.

Pútín gerði hinsvegar að umtalsefni viðskiptaþvinganir sem Rúsari hafa verið beittir.

„Rússland hefur ætíð virt fullveldisákvörðun ríkja, hvernig þau skipa stjórnmálastarfi sínu og stofna efnahagslegar og hernaðarlegar einingar. Við vonum þó að það skaði ekki aðra aðila alþjóðasamfélagsins og það slíkt verði ekki á okkar kostnað,“ sagði Pútín.

Grunnt hefur verið á því góða í samskiptum ríkjanna og ásókn Rússa yfir landamærin í Austur-Úkraínu síst verið til að bæta ástandið. Síðast í gær höfðu úkraínskir hermenn hendur í hári tíu rússneskra kollega sína, sem sögðust hafa farið óvart yfir landamærin.

Auk þess að funda með helstu deiluaðilanum er Poroshenko einnig að taka til í bakgarðinum hjá sér, en í gær leysti hann upp þjóðþing Úkraínu og boðaði til kosninga í lok október. Hann sagði  marga þingmenn vera enn hliðholla Vikt­ori Janúkóvit­sj, fyrr­ver­andi for­seta lands­ins, og að þeir styddu aðgerðir vopnaðra uppreisnarmanna í austurhluta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×