Innlent

Orkuveituforstjóri hefur bústað við Þingvallavatn til umráða

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Við þessa litlu vík við Þingvallavatn í landi Nesjavalla ræður forstjóri Orkuveitunnar yfir sumarbústað fyrirtæksins og meðfylgjandi hraðbát sem geymdur er í sérstöku bátaskýli sem sést til hægri á myndinni.
Við þessa litlu vík við Þingvallavatn í landi Nesjavalla ræður forstjóri Orkuveitunnar yfir sumarbústað fyrirtæksins og meðfylgjandi hraðbát sem geymdur er í sérstöku bátaskýli sem sést til hægri á myndinni. Fréttablaðið/Pjetur
Á sama tíma og Orkuveita Reykjavíkur selur eignir sem ekki tengjast kjarnastarfsemi fyrirtækisins er sumarhús við Þingvallavatn sem ætlað er forstjóranum ekki sett á sölulista.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, segir að þar sem sumarhúsið standi ofan á vatnstökusvæði á Grámel hafi ekki þótt rétt að hafa lóðina á sölulista eigna fyrirtækisins, sem samþykktur var af stjórn OR á árunum 2010 og 2011.

„Í gegnum tíðina hafa hitaveitustjórar og síðar forstjórar Orkuveitunnar haft ráðstöfunarrétt yfir húsinu,“ svarar Eiríkur aðspurður um hverjir hafi afnotarétt að húsinu. Eiríkur kveður Bjarna Bjarnason forstjóra vera erlendis og því geti hann ekki að svo stöddu svarað því hver hafi notað bústaðinn síðast og hvenær.

Læst hlið. Ekki er ætlast til að almenningur komist að bústað forstjóra Orkuveitunnar. Vísir/Pjetur
„Húsið hefur lítið verið notað undanfarinn áratug eða svo sökum ástands þess,“ heldur Eiríkur áfram og bætir við: „Ákveðið var þó að gera það múshelt með því að endurbæta klæðningu að utan nú nýverið.“

Sumarhús forstjórans er á afviknum stað við lítinn tanga milli tveggja víkna og sýnist reyndar í afbragðs standi. Þótt bústaðurinn sé upphaflega frá 1946 virðist hann hafa verið mikið endurnýjaður og er meðal annars með nýja viðarklæðningu. Innandyra er arinn og leðurhúsgögn.

Á veröndinni eru garðhúsgögn og veglegt gasgrill. Í fallegri víkinni er stórt bátaskýli sem byggt var 1998. Skýlið geymir viðarhraðbát og annan minni léttabát.

Að sögn Eiríks er framtíð forstjórahússins óráðin. „Reiknað er með að það verði á sömu lóð og og vatnstökuhúsið á Grámel og í umsjá Orku náttúrunnar, dótturfyrirtækis OR sem sér um rekstur virkjananna og þar með vatnstökuna á Grámel. Þetta er þó ekki frágengið,“ segir hann.

Nægt rými. Langt er í næstu bústaði frá sumarhúsi sem forstjóri Orkuveitunnar ræður yfir á litlum tanga milli tveggja víkna í Þingvallavatni.Vísir/Pjetur
Eins og fram hefur komið hyggst Orkuveitan ekki framlengja hálfrar aldar gamla lóðarleigusamninga sumarhúsa sem standa við Þingvallavatn skammt norðan við forstjórabústaðinn. Til stóð á tímabili að selja eigendunum lóðirnar eða að minnsta kosti endursemja um leiguna sem Orkuveitunni þótt orðin alltof lág enda ekki vísitölubundin í upphafi.

Í júní ákvað stjórn OR hins vegar að hætta við söluna og að hætt yrði að nýta lóðirnar undir sumarhús þar sem stórt vatnsból sé á svæðinu og mikilvægt væri fyrir rekstur Nesjavallavirkjunar að ráða yfir strandlengjunni við vatnið. Forstjóranum var falið að annast málið.

Eigendur sumarhúsanna mótmæltu bæði fyrrgreindum áformum um sölu lóðanna og um hækkun leiguverðs. Ekki hefur náðst tal af lögmanni þeirra en Eiríkur segir fulltrúa Orkuveitunnar og húseigenda hafa átt í samskiptum síðustu vikur.

„Hvort þau leiða til niðurstöðu eða þá hvaða er ekki hægt að segja til um núna og ég vil ekki vera með neinar vangaveltur þar um,“ segir upplýsingafulltrúinn.

Á veröndinni standa húsgögn og stórt gasgrill tilbúið til notkunar.Vísir/Pjetur
Veiði bönnuðVísir/Pjetur
Bátaskýlið sem byggt var 1998. Skýlið geymir viðarhraðbát og annan minni léttabát.Vísir/Pjetur

Tengdar fréttir

Orkuveitan vill losna við Þingvallabústaði

Stjórn Orkuveitunnar er hætt við sölu gamalla sumarhúsalóða í landi Nesjavalla við Þingvallavatn og vill bústaðina burt. Mikilvægt sé fyrir Nesjavallavirkjun að OR eigi strandlengjuna. Sumarhúsaeigendur eru ósáttir en hafa tapað kærumáli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×