Innlent

Orkuframleiðsla Íslands öll hrein

Svavar Hávarðsson skrifar
Jarðvarmi er að baki um 26% af raforkuframleiðslu Íslands.
Jarðvarmi er að baki um 26% af raforkuframleiðslu Íslands. vísir/vilhelm
Á sama tíma og 99,99 prósent allrar raforku á Íslandi eru framleidd með endurnýjanlegum hætti, er það hlutfall 22 prósent af allri raforkuframleiðslu OECD-ríkja. Þetta kemur fram í nýjustu tölum frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA), sem Samorka segir frá.

Tölur IEA ná yfir tímabilið 2014-2016. Þar kemur fram að 60 prósent rafmagns í OECD ríkjum eru framleidd með jarðefnaeldsneyti, átján prósent með kjarnorku, fjórtán prósent með vatnsafli og loks rúmlega átta prósent með jarðvarma, vindi, sólarorku eða öðru. Athygli vekur hversu hægt dregur úr umfangi jarðefnaeldsneytis við rafmagnsframleiðsluna í ríkjum OECD, að mati Samorku.

Þegar sama tímabil er skoðað fyrir Ísland sést að vatnsafl er að baki um 73 prósentum af heildarraforkuframleiðslu á Íslandi og jarðvarmi um 26 prósentum. Að sama skapi sést að framleiðsla með vatnsafli hefur aukist en dregist saman með jarðvarma. Framleiðsla með jarðefnaeldsneyti er hverfandi. Þar sem hún mælist er líklega um varaaflstöðvar að ræða sem eru keyrðar í gang við rafmagnsleysi í flutnings- eða dreifikerfinu.

„Að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis er eitt mikilvægasta verkefni sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir í loftslagsmálum. Ítarlegar rannsóknir hafa sýnt fram á hækkandi hitastig jarðarinnar með alvarlegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir,“ segir í frétt Samorku 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×