Skoðun

Orð og efndir

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Það eru alltaf vonbrigði þegar verkefni sem maður tekst á hendur verða ekki að veruleika. Þannig er með niðurstöðu óformlegra stjórnarmyndunarviðræðna fimm flokka, sem slitið var í gær. Þingflokkur Vinstri grænna fól Katrínu Jakobsdóttur formanni umboð til að fara í formlegar viðræður í upphafi þeirra, en aðrir flokkar vildu það ekki. Í gær kom svo í ljós að of langt bar á milli flokka til að hægt yrði að ná saman.

Trauðla bar annað orð oftar á góma í kosningabaráttunni en orðið innviðir. Allir flokkar virtust sammála um að þá þyrfti að efla, orðið innviðauppbygging var mikið tekið af stjórnmálamönnum í framboði. Og ætli annar málaflokkur hafi verið meira ræddur en heilbrigðismál?

En hvað gerist svo eftir kosningar? Þá kemur í ljós að til að efla heilbrigðiskerfið, menntakerfið, velferðarkerfið, til að byggja upp innviðina, til að framkvæma kosningaloforðin – til að gera allt þetta þarf fjármuni. Og þeir fjármunir liggja ekki á lausu. Staða ríkissjóðs reyndist ekki eins góð og fráfarandi stjórnarflokkar vildu vera láta (hver hefði trúað því að stjórnarflokkar reyndu að fegra ríkisfjármálin í aðdraganda kosninga?) og um á þriðja tug milljarða vantaði til að standa undir samþykktum þingsins um framkvæmdir og rekstur 2017. Fyrir utan allt annað.

Fjármunir þurfa að koma einhvers staðar frá. Vinstri græn hafa ekki verið hrædd við að stinga upp á leiðum til að fjármagna samneysluna. Við teljum að skattkerfið eigi að vera bæði til tekjuöflunar og tekjujöfnunar. Því miður hafa aðrir flokkar ekki reynst tilbúnir til að fara í þá tekjuöflun sem þó er nauðsynleg til að þeirra eigin loforð verði að veruleika. Þar stendur.

Ég er einfaldur maður og tel að fólk eigi að segja satt. Það á ekki að lofa einhverju fyrir kosningar, en hlaupa frá því eftir kosningar. Það eru gamaldags klækjastjórnmál.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×