Viðskipti innlent

Opna World Class í sömu götu og Reebok Fitness

Haraldur Guðmundsson skrifar
Laugar fengu lóð við Tjarnarvelli en Reebok rekur líkamsræktarstöð í götunni og aðra í innan við hundrað metra fjarlægð.
Laugar fengu lóð við Tjarnarvelli en Reebok rekur líkamsræktarstöð í götunni og aðra í innan við hundrað metra fjarlægð. Vísir/Stefán
Laugar ehf. hefur fengið úthlutað lóð undir nýja líkamsræktarstöð World Class við Tjarnarvelli í Hafnarfirði. Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class, segir stefnt að opnun haustið 2018 og að hann óttist ekki samkeppni við Reebok Fitness sem rekur tvær líkamsræktarstöðvar í innan við 100 metra fjarlægð.  

Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class.Vísir/GVA
„Það verður samkeppni þarna á svæðinu en ég hef ekki áhyggjur af því. Ég keyri einfaldlega mína gæðastefnu og þá kemur fólkið,“ segir Björn í samtali við Markaðinn.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti lóðarumsókn Lauga um Tjarnarvelli 7 síðasta miðvikudag. Bæjaryfirvöld höfnuðu aftur á móti í maí í fyrra umsókn félagsins um lóð við Suðurbæjarlaug. Þar vildi Björn byggja 2.000 fermetra líkamsræktarstöð í suðurenda sundlaugargarðsins.

„Ég reyndi við Suðurbæjarlaug og fékk ekki og hef alltaf haft áhuga á að koma upp alvöru stöð í Hafnarfirði með leikfimisölum og slíku. Húsið sem ég þarf að byggja er 4.200 fermetrar en stöðin sem slík verður um 2.500 fermetrar. Þetta er í stærri kantinum miðað við aðrar stöðvar hjá okkur,“ segir Björn.

Reebok Fitness opnaði við Tjarnarvelli 3 í ágúst 2015. Byggingin hafði þá staðið tóm frá árinu 2008. Í júlí síðastliðnum sömdu Hafnarfjarðarbær og Reebok Fitness um opnun á nýrri líkamsræktarstöð í Ásvallalaug. Var þá skrifað undir fimm ára leigusamning en sundlaugin er staðsett rétt tæpum hundrað metrum frá lóð Lauga eða álíka langt frá og henni og hin stöð Reebok Fitness.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×