Skoðun

Opið bréf til Þjóðhátíðarnefndar

Valgarður Reynisson skrifar
Nú hefur þeim sem koma að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum tekist að klúðra orðspori hátíðarinnar með einskærum klaufaskap og vitleysisgangi. En áður en menn rjúka til og sparsla í sárið með auglýsingum og almannatenglum ætla ég að bjóða fram einfaldari lausn. Fyrst verður hinsvegar að gera grein fyrir vandamálinu.

Í grunninn er vandinn fólginn í því ofbeldi og viðstöðulausri áfengisneyslu sem viðgengst á hátíðinni. Orðspor og ímynd hátíðarinnar er í höndum Þjóðhátíðarnefndar og hún ber ábyrgð á því ástandi sem nú hefur orðið. Fjaðrafokið byrjaði fyrir ári síðan með bréfi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum þar sem hún lagði hart að starfsmönnum að veita engar upplýsingar um þau kynferðisbrot sem framin yrðu á hátíðinni. Rökin voru þau að markmiðið væri að vernda þolendur og rannsóknarhagsmuni og það er góðra gjalda vert. Lögreglustjórinn hefur nokkuð til síns máls og það er vel hægt að taka undir þá gagnrýni að fréttaflutningur af kynferðisbrotum hafi verið óþarflega nákvæmur og hafi mögulega valdið þolendum ofbeldis frekari skaða. Það þarf hinsvegar ekki að ígrunda málið lengi til að átta sig á því að ákvörðunin um að veita ekki ópersónugreinanlegar upplýsingar um fjölda kynferðisbrota er tekin með hagsmuni Þjóðhátíðar í huga en ekki brotaþola. Almenningur hlýtur að eiga rétt á upplýsingum um kynferðisbrot eins og önnur brot. Samfélagið hefur þar augljósra hagsmuna að gæta auk þess sem það að halda kynferðisbrotum fyrir utan almenna umræðu er stór hluti af vandamálinu eins og margoft hefur komið fram síðustu ár.

Óvönduð umræða

Umræðan í kjölfar ákvörðunar lögreglustjórans hefur pólaríserast á þann hátt að sumir telja málið snúast um að vera „með eða á móti Þjóðhátíð“, „með eða á móti ofbeldi“ eða jafnvel „með eða á móti Vestmannaeyjum“. Ein birtingarmynd þessarar tvíhyggju er umfjöllun Eyjafrétta þar sem fullyrt er að fréttastofa RÚV hafi „gefið skotleyfi“ á lögreglustjórann í Vestmannaeyjum. Það er í besta falli broslegt en í versta falli til marks um „við og hinir“ viðhorfið sem kemur í veg fyrir málefnalega umræðu. Yfirskrift einnar fréttar Eyjafrétta var t.d. „Þjóðhátíð Vestmannaeyja og Eyjamenn dregnir í svaðið“.

Eins og áður sagði á ákvörðun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum rétt á sér, allavega að hluta til. Sú mikla umfjöllun sem það tiltekna mál hefur fengið kann því við fyrstu sýn að virka eins og stormur í vatnsglasi en sú niðurstaða verður einungis fengin með því að hundsa það sem áður hefur komið í ljós um viðhorf aðstandenda Þjóðhátíðar til kynferðisbrota á hátíðinni. Fyrrverandi fréttamaður Stöðvar 2 sagði t.a.m. frá því á Facebook síðu sinni að Eyjamenn hefðu beitt fréttastofu Stöðvar 2 þrýstingi til að kæfa umfjöllun um meint kynferðisbrot á Þjóðhátíð fyrir rúmum 10 árum. Sé það rétt er auðveldara að skilja reiði almennings vegna ákvörðunar lögreglustjórans. Hún sé þá mögulega nýjasta útspilið í meira en 10 ára baráttu gegn umfjöllun um kynferðisbrot á Þjóðhátíð. Alvarlegasti vitnisburðurinn um viðhorf aðstandenda Þjóðhátíðar til kynferðisbrota á hátíðinni eru hinsvegar undarlegar yfirlýsingar formanns Þjóðhátíðarnefndar, Páls Scheving, árið 2011. Þá sagði Páll að samtökin Stígamót væru hluti af vandanum en ekki lausninni varðandi nauðganir á Þjóðhátíð. Í framhaldinu neitaði Páll að biðja Stígamót afsökunar á orðum sínum og sagði við það tilefni: „Ég get ekki vikið frá bæjarbúum og þjóðhátíðinni sem slíkri og beðist afsökunar“. Formaður Þjóðhátíðarnefndar virðst líta svo á að hér eigist við tveir andstæðir pólar. Í öðru liðinu eru íbúar í Vestmannaeyjum og þeir sem hafa gaman af Þjóðhátíð og í hinu liðinu eru þeir sem telja að meira sé hægt að gera til að fyrirbyggja ofbeldi á Þjóðhátíð og vilja opna umræðuna um kynferðisofbeldi. Í öðru liðinu telja menn að umfjöllun um kynferðisbrot skaði Þjóðhátíðina, í hinu telja menn að þöggunin sé skaðvaldurinn. Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum bætti síðan um betur og líkti umfjöllun fjölmiðla fyrir nýafstaðna Þjóðhátíð við Lúkasarmálið. Afstaða bæjarstjórans er þá líklega sú að aðstandendur Þjóðhátíðar hafi ekki gert neitt til sem réttlætir umrædda gagnrýni og fjölmiðlaumfjöllun. Það eru margir góðir punktar í grein bæjarstjórans, en eins og Páll dettur hann í þá gryfju að hrökkva í vörn fyrir sitt samfélag þegar það hefði verið miklu betra að spila sóknarbolta.

Stemmningin skiptir máli

Sem betur fer er þessi vandi frekar auðleystur, það er nefnilega svo að hagsmunir hópanna tveggja eru alls ekki ósamrýmanlegir. Fyrsta og mikilvægasta skrefið er að Þjóðhátíðarnefnd átti sig á að skaðinn er þegar skeður. Frekari tilraunir til að réttlæta fyrri afstöðu munu líklega bara dýpka holuna sem menn eru komnir ofaní, hvort sem mönnum þykir það sanngjarnt eða ekki. Orðspor Þjóðhátíðar hefur beðið mikla hnekki og það hefur afleiðingar. Slíkt hefur t.d. áhrif á ákvarðanir fólks um að sækja hátíðina, hverjir velja að sækja hana og hvaða styrktaraðilar velja að leggja nafn sitt við hátíðina. Þeim sem er annt um Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum verða því að grípa til einhverra ráða.

Sem betur fer eru til dæmi um útihátíðir hér á landi sem hafa gengið stóráfallalaust fyrir sig.  Allir vita líka dæmi um hátíðir sem hafa gengið miklu verr eins og „Halló Akureyri“. Sú hátíð var lögð niður og kerfisbundið reynt að breyta um stemmningu með því að bjóða upp á fjölskylduhátíðina „Ein með öllu“ og hefur það gengið þokkalega. Skipuleggjendur hátíðarinnar „Eistnaflugs“ á Neskaupstað eru stoltir af hegðun sinna gesta en þeir hafa jafnframt unnið mikið forvarnarstarf og skapað jákvætt andrúmsloft sem stuðlar að þessum góða árangri. Fyrir hátíðina í ár auglýstu þeir grimmt undir slagorðinu „Það er bannað að vera fáviti á Eistnaflugi“. Allir gestir hátíðarinnar mæta á staðinn með það í huga að ofbeldi sé ekki liðið og það verður einskonar keppikefli hátíðargesta og mikilvægur hluti af stemmningunni að haga sér vel. Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Eistnaflugs, hefur lýst því yfir að hann muni ekki halda hátíðina aftur komi upp gróft ofbeldis- eða kynferðisbrot á hátíðinni. Sú afstaða er skiljanleg og það eru líklega fáir sem geta sofið rólegir vitandi að þeir bæru ábyrgð á slíku. Samskonar yfirlýsing er ótímabær fyrir Þjóðhátíðarnefnd en það hlýtur samt að vera markmiðið. Að Þjóðhátíð fari fram án þess að gróf ofbeldisbrot eigi sér stað, ekki bara án þess að sagt sé frá þeim. Eyjamenn hafa löngum verið þekktir fyrir hreysti og myndarskap og það er engin ástæða til annars en að ætla að þeir geti haldið svo stóra hátíð sem Þjóðhátíð er, án þess að nokkrir einstaklingar hljóti alvarlegan og jafnvel varanlegan skaða af á hverju ári. Sóknarbolti er alltaf skemmtilegri en varnarbolti.

En hver er þá lausnin?

Fyrsta skrefið í að leysa öll vandamál er að viðurkenna að þau séu til staðar, ef ekki opinberlega þá a.m.k. fyrir sjálfum sér. Gróf ofbeldisbrot eru ekki bara sjálfsagður hluti af íslenskri útihátíðastemmningu heldur vandamál sem hægt er að koma í veg fyrir. Þjóðhátíðarnefnd þarf að senda miklu skýrari skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið og hafa frumkvæði að róttækum úrbótum. Hér eru nokkrar tillögur að úrbótum sem geta bæði fækkað alvarlegum ofbeldisbrotum og breytt þeirri slæmu ímynd sem Þjóðhátíð er að fá á



- Segja frá fjölda kynferðisbrota sem koma upp á hátíðinni.


Smáatriði eru óþörf en fjöldi þeirra eru nauðsynlegar upplýsingar, þó ekki væri nema bara til að bæta ímynd hátíðarinnar.

- Efla gæslu á hátíðarsvæðinu.

Hversu mikil gæsla er nógu mikil er erfitt að segja til um en það hljóta allir að vera sammála um að eitt alvarlegt ofbeldisbrot er einu of mikið. Hugsanlega mætti ná betri árangri með því að skilgreina betur svæði, hópa eða tíma sem skapa sérstaka hættu. Þá er mikilvægt að búa yfir réttum upplýsingum. Slíkt hefur t.d. þegar verið gert eftir að nauðgun átti sér stað á salernisaðstöðu hátíðarinnar 2013 og það er alltaf hægt að gera enn betur. Sýnileiki gæslunnar og viðmót er mjög mikilvægt og eftirlitsmyndavélakerfið sem var tekið í notkun í fyrra skiptir verulegu máli.

- Breyta stemmningunni.

Hverskonar hátíð er Þjóðhátíð og hvaða skilaboð eru send til hátíðargesta um æskilega hegðun? Hvaða skilaboð senda þeir listamenn sem koma fram á hátíðinni? Hvers vegna er bjórframleiðandi einn aðalstyrktaraðili hátíðarinnar? Hversu stóran þátt ætli ofneysla áfengis spili í þeim ofbeldisbrotum sem eiga sér stað? Er eitthvað sem hægt er að gera til að draga úr neyslunni?

Efla samstarf við viðeigandi samtök.

Með því að efla enn frekar samstarf við frjáls félagasamtök væri Þjóðhátíðarnefnd bæði að bæta ímynd hátíðarinnar og hugsanlega fækka alvarlegum brotum. Þar er forvarnarþátturinn sá hluti sem er líklega vanmetnastur á Þjóðhátíð. Hvaða áhrif ætli það myndi hafa ef allir Þjóðhátíðargestir fengju bol með slagorði eins og „Ekki nauðga“ um leið og þeir kæmu inn á svæðið?



Þetta er alls ekki tæmandi listi og eflaust er hægt að gera eitthvað miklu gáfulegra en hér er lagt til. Það þarf hinsvegar að gera eitthvað. Aðstandendur Þjóðhátíðar geta ekki horft á hátíðina daga uppi eins og nátttröll, hún verður að þróast í takt við tímann og hafa frumkvæðið að því að efla forvarnir og senda enn skýrari skilaboð en áður. Sem samfélag getum við ekki samþykkt að nauðganir og önnur gróf ofbeldisbrot séu bara eðlilegur fórnarkostnaður af fjölmennum útihátíðum. Sem betur fer er margt hægt að gera til að laga þessa slæmu stöðu. Það er vonandi, okkar allra vegna, að Þjóðhátíðarnefnd íhugi næstu skref sín vandlega og standi uppi sem hetjan að lokinni Þjóðhátíð 2016.




Skoðun

Sjá meira


×