Skoðun

Opið bréf til borgarfulltrúa

Andri Valgeirsson skrifar
Ég hef ferðast með ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík í um 20 ár og hef því töluverða reynslu af að ferðast með þeim. Fyrir örfáum dögum lenti ég í þeirri „skemmtilegu“ reynslu á leið heim úr vinnu að ferðaþjónustubíllinn sem ég var farþegi í bilaði á miðjum fjölförnum gatnamótum. Þetta er kannski ekki í frásögur færandi, þar sem bílar bila og getur það auðvitað gerst hvar og hvenær sem er. Alla mína tíð sem farþegi hjá ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík hefur þetta einungis gerst tvisvar sinnum og bæði skiptin á þessu ári, 2014.

Persónulega finnst mér ástæðan fyrir þessu nokkuð augljós. Fyrir ári hófust umræður hjá Reykjavíkurborg í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að bjóða ætti ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu út til einkareksturs.

Ástæður eru sagðar vera mögulegur sparnaður í rekstri og leið til að bæta þjónustu við notendur. Útboðið hefur dregist mjög á langinn og á meðan hefur enginn nýr bíll verið keyptur hjá ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík.

Þegar bílum í atvinnurekstri er einungis haldið við með lágmarksviðgerðum er engin furða að þeir bili á miðjum gatnamótum. Sérstaklega þegar við erum að tala um bíla sem eru níu til þrettán ára gamlir og keyrðir 400.000-800.000 kílómetra!

Alveg frá byrjun hef ég furðað mig á þessum útboðshugmyndum þar sem ferðaþjónusta fatlaðra í Reykjavík er að mínu mati nokkuð góð. Auðvitað má alltaf bæta allt en það væri örugglega hægt að spara með öðrum hætti en með útboði. Fólk verður að átta sig á því að þetta eru almenningssamgöngur sem eru nauðsynlegar fyrir fatlað fólk. Ég vil leyfa mér að draga í efa að mikill sparnaður verði í rekstri ferðaþjónustu fatlaðra með þessum aðgerðum, hvað þá bætt þjónusta fyrir farþega. Til þess að bæta þjónustu þessa er langbest að tala við og vera í fullu samráði við farþega og hagsmunafélög fatlaðs fólks.

Í stað þess að láta nægja að upplýsa okkur um stöðu mála, væri ekki betra að vinna með okkur? Vil ég því hvetja borgarstjórn Reykjavíkur að hefja nú þegar fullt samráð við aðildarfélög fatlaðra í þessu ferli. Ekkert um okkur án okkar!




Skoðun

Sjá meira


×