Skoðun

Opið bréf til bæjarstjórnar Garðabæjar

Sóley Björg Færseth og Hrefna Geirsdóttir skrifar
Þann 11. mars s.l var íbúum í Túnahverfi boðið til kynningarfundar vegna deiliskipulags í Túnahverfi. Ástæða þess að bæjarstjórn Garðabæjar sá sig nauðbeygða að fara í skipulags­mál eru deilumál sem upp hafa komið bæði í Túnahverfi og á Arnanesi. Þessi tvö hverfi eru með elstu hverfum Garðabæjar og fram að þessu hefur ekki verið til deiliskipulag fyrir hverfin.

Á fundinum voru íbúum Túnahverfis kynntar tillögur/hugmyndir að nýju deiliskipulagi. Helsta breytingin sem fram kom á þessum fundi var sú, að áður skipulagt svæði, Silfurtún – Hofstaðamýri myndi falla undir skipulag Túnahverfis. Á þessu svæði er að finna skátaheimili, leikskóla, skólagarða, og garðyrkjustöð bæjarins, jafnframt komu fram hugmyndir bæjar­yfirvalda um stækkun á skátaheimilinu.

Íbúar Túnahverfis gerðu strax athugasemdir við þá hugmynd að stækka skátaheimilið. Einnig komu fram óskir íbúa um að gamalt rólóhús yrði fjarlægt og yrði ekki inn á deiliskipulagi, ásamt því að farið yrði í endurbætur á lóð garðyrkjustöðvar bæjarins. Skipulagsyfirvöld Garðabæjar voru með hugmyndir um útikennslustofu á lóð garðyrkjustöðvarinnar og gerðu íbúar ekki athugasemd við þá hugmynd bæjaryfirvalda á fundinum. Að lokum fóru íbúar fram á það að bæjaryfirvöld færu í að klára deiliskipulag fyrir svæðið og tæku tillit til skriflegra athugasemda sem íbúar sendu varðandi þessi mál.

Þann 8. maí s.l. barst okkur íbúum við Faxatún 18, 20, 22, 24, 26 og 28 ásamt íbúum í 4 húsum við Engimýri, grenndarkynning vegna stækkunnar á Leikskólanum Bæjarbóli, „með bráðabirgðahúsnæði „færanlegri skólastofu", sem sett yrði á áður skipulagt svæði Silfurtún – Hofstaðamýri, svæði sem nú á að fella inn í deiliskipulag Túnahverfis. Íbúar við Faxatún gerðu athugasemd við þessa skipulagsbreytingu. Rök íbúanna eru þau;

Svæðið er í ferli vegna deiliskipulagsvinnu fyrir Túnahverfið og ekki grundvöllur að taka einn lið út úr skipulagsvinnunni og vinna hann sérstaklega

Starfsemi á svæðinu er nú þegar of mikil;

Leikskóli með 4 deildir og 85 börn

Skátaheimili, með virka skátastarfsemi og útleigu á sal sem aldrei var kynntur eða veitt leyfi fyrir.

Smíðavöllur að sumarlagi

Ævintýranámskeið að sumarlagi

Hjálparsveit skáta í Garðabæ með starfsemi

Skólagarðar að sumarlagi

Gögn sem okkur bárust vegna grenndarkynningar voru ófullnægandi. Hæðarlega hússins kemur ekki fram í gögnum. Við óskuðum eftir frekari upplýsingum varðandi hæðarlegu. Þeirri ósk okkar hefur ekki verið svarað. Í grenndarkynningu kemur ekki fram hver aukning verður á starfsemi á leikskólalóðinni, samkvæmt okkar mati þá er hér um 30% aukningu að ræða.

Viðbrögð bæjaryfirvalda varðandi athugasemdir okkar eru alveg með ólíkindum. Svo virðist sem bæjarstjórnendur Garðabæjar hafi gleymt áður settum markmiðum varðandi lýðræði. Lítið sem ekkert hefur verið tekið tillit til athugasemda okkar. Svo virðist sem stjórnmálamenn og stjórnsýsla hafi ekki fengið viðeigandi þjálfun til að leiða lýðræðisferla, eða er lýðræðistefna Garðabæjar aðeins stafir á blaði og gott að draga upp við hátíðleg tækifæri?

Í Garðabæ hefur verið gefin út lýðræðisstefna og á heimasíðu Garðabæjar segir um tilgang lýðræðisstefnunnar:

„Tilgangurinn með því að setja bæjarfélaginu lýðræðisstefnu er að stuðla að auknum möguleikum íbúa til að taka þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum bæjarins og jafnframt að hvetja þá til þess.

Í inngangi að lýðræðisstefnunni segir m.a.: "Bæjarstjórn Garðabæjar hefur um árabil lagt áherslu á samráð við íbúa í mörgum málaflokkum. Þetta samráð hefur verið framkvæmt með ólíkum hætti, t.d. með íbúafundum, rafrænum könnunum og rýnihópum. Með samþykkt lýðræðisstefnu er þessi vilji bæjarstjórnar til samráðs við íbúa skjalfestur og settur um hann rammi. Lýðræðisstefnan felur einnig í sér vilja til að gefa íbúum fleiri tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku og stefnumótun í málefnum sveitarfélagsins og skuldbindur stjórnendur og starfsmenn til að vera sífellt vakandi fyrir því að leita nýrra leiða til þess"

Eitt af markmiðum lýðræðisstefnu Garðabæjar er að;

„Stjórnmálamenn og stjórnsýsla Garðabæjar fái viðeigandi þjálfun til að leiða lýðræðisferla"

Formaður skipulagsnefndar Stefán Konráðsson, ritaði grein hér um daginn þar sem hann segir að það sé ekki á valdi skipulagsnefnda að veita leyfi til útleigu á sölum til skemmtanahalds. Hvernig getur maður í þessari stöðu sagt svona? Það liggur í augum upp að skipulagsnefndir skipuleggja svæði með ákveðna starfsemi í huga, þar af leiðandi getur skipulagsnefnd Garðabæjar ekki vikið sér undan slíkri ábyrgð.

Við undirrituð höfum setið nokkra bæjarstjórnarfundi í Garðabæ að undanförnu til að fylgja málum okkar eftir. Á þessum fundum höfum við heyrt nokkur ólíkindamál og fengið það staðfest að lýðræðisstefna Garðabæjar er aðeins fyrir suma. Auk þess sem orð eins og lífsgæði hafa verið viðhöfð. Ónæði vegna byggingaframkvæmda inni í íbúðahverfi var mikið áhyggjuefni fulltrúa Samfylkingar, en málefni íbúa við Túnin voru tekin upp til málamynda og þótti ekki vert að fá niðurstöðu um þeirra mál.

Á bæjarstjórnarfundi þann 19. maí kom fram að bæjarstjóri Garðabæjar væri á förum til Norðurlandanna til að kynna sér skipulagsmál varðadi samgöngur. Markmiðið, jú það var að bæta lífsgæði okkar á Höfuðborgarsvæðinu. Sami bæjarstjóri stóð í pontu á bæjarstjórnar­fundi þann 16. júni s.l. og upplýsti okkur um að fólk vildi hafa leikskóla nærri sínu heimili. Auðvitað erum við sammála bæjarstjóranum varðandi þetta mál. Því spyrjum við af hverju eru ekki leikskólar í Flatahverfi og á Arnarnesi? Við íbúar í Túnum og Mýrum höfum leikskóla í okkar hverfi. Ágæti bæjarstjóri hvað með lífgæði okkar sem næst búum svæðinu Silfurtún –Hofstaðamýri?

Á bæjarstjórnarfundinum þann 16. júni var rætt um bréf íbúa á Arnarnesi varðandi frágang lóðar sem sjónmengun er af jafnframt sem umferð reiðhjóla fer fyrir brjóstið á íbúum við Hegranes og Súlunes og áhyggjur íbúa um veðmæti eigna sinna vegna þessara mála. Bæjarfulltrúar Garðabæjar deildu þessum áhyggjum íbúans. Hvað með verðmæti eigna okkar sem búum við svæðið Silfurtún – Hofstaðamýri? Á fundinum kom fram hugmynd um gerð hjólastígs meðfram Hafnafjarðarvegi, rándýr framkvæmd sem eitthvað stóð í bæjar­fulltrúum.

Á þessum bæjarstjórnarfundi var einnig mikið rætt um viðhengi við áður gerðan samning við Klasa vegna miðbæjarframkvæmda í Garðabæ. Kostnaður sem fellur á Gaðabæ einhverjar 400 milljónir og kostnaður við bílastæði. Hvernig má það vera að umræða um rándýran hjólastíg yfir Arnanesið sé yfirleitt í umræðunni, til að hlífa íbúum á Arnarnesi við hjólreiðamönnum og ónæði sem þeim fylgir, þegar bæjaryfirvöld sjá sér ekki fært að leysa bráðan vanda sem nemur 3 miljónum?

Á bæjarstjórnarfundinum 16. júní gerði formaður skipulagsnefndar Stefán Konráðsson, grein fyrir ástæðum fyrir vali á stækkun við Bæjarból. Samkvæmt þeirra útreikningum er ódýrast að flytja húsið þangað. Stefán sagði að tekið hefði verið tillit til íbúa þar sem aðgangur að húsinu yrði ekki af göngustíg heldur yrði farið um lóð leikskólans. Þessi göngustígur sem um ræðir liggur með íbúðarhúsum við Engimýri, ekki komu neinar athugasemdir frá íbúum þar. Hver er þá ástæðan fyrir því að tekið var tillit til þeirra sem þar búa? Það skyldi þó ekki vera vegna fjölskyldutengsla bæjarstjóra sem býr í einu af þeim fjórum húsum sem þar standa. Íbúar allra húsa við Faxatún mótmæltu sjón- og hávaðamengun sem þegar er orðin of mikil á þessu svæði. Stefán telur nefndina ekki þurfa að taka tillit til mótmæla sem komu frá öllum íbúum þeirra húsa sem eru við Faxatún. Til hvers var þá grenndarkynning?

Á margumræddum reit er göngustígur sem liggur mjög nærri efstu húsaröð í Túnahverfinu. Umferð bæði gangandi- og hjólandi vegfarenda hefur aukist mjög síðastliðin ár. Þegar við íbúar bentum á göngustíginn í samhengi við skipulagið, þá virtist það alveg vera mögulegt að færa stíginn frá húsunum, sá kostnaður virtist ekki þvælast fyrir bæjarfulltrúm þótt 3 miljónir til viðbótar áætluðum kostnaði við flutning á skólastofu sé alveg óyfirstíganlegur.

Á bæjarstjórnarfundinum þann 16. júni tóku allir tóku bæjarfulltrúar til máls vegna deiliskipulagsins á reitnum Silfurtún – Hofstaðamýri nema einn, sá var Sturla Þorsteinsson. Allir þeir sem tóku til máls vegna deiliskipulagsins höfðu einhvern skilning á máli íbúa, Páll Hilmarsson tók meðal annars upp lýðræðisstefnuna. Mest á óvart kom forseti bæjar­stjórnar Áslaug Hulda Þorsteinsdóttir. Framkoma hennar í ræðustól, viðhorf hennar til leikskólans Bæjarbóls og viðmót sem hún sýndi okkur íbúum sem sátu bæjarstjórnarfundinn. Með vísan til orða bæjarstjóra um að leikskólar ættu að vera sem næst heimilinu, þá hefði Áslaug átt að fara fram á það að leikskóli yrði reistur á Arnarnesinu, þar er enginn leikskóli. Við atkvæðagreiðslu vegna málsins, deiliskipulag Silfurtún – Hofstaðamýri greiddi aðeins einn bæjarfulltrúi atkvæði með íbúum í Túnahverfi það var fulltrúi Fólksins í bænum og á hún þakkir skilið.

Eftir að hafa setið þrjá bæjarstjórnarfundi, þá virðist sem þetta leikskólamál sé hugarfóstur bæjarstjórans, svo virðist sem það sé hann sem ræður. Valdastrúktur bæjarstjórnar Garða­bæjar virðist eitthvað vera úr lagi genginn. Ef menn átta sig ekki á því þá er bæjarstjóri ráðinn til starfa, hann er ekki kosinn bæjarfulltrúi, hann tilheyrir stjórnsýslunni. Bæjarfulltrúar verða að axla sína ábyrgð þeir hafa rétt til að taka ákvarðanir, þeir voru kosnir til þess, það eru réttindi okkar íbúa að hafa áhrif á ákvarðanir bæjarfulltúra og það er skylda bæjarstjóra að vinna að og koma þeim ákvörðunum í verk.

Á fundi bæjarstjórnar 16. júni var hjúkrunarheimilið Holtsbúð til umræðu. Það fór fyrir brjóstið á bæjarfulltrúum að málið hefði ratað í fjölmiðla. Stjórnarformanni Holtsbúðar Erling Ásgeirssyni fannst tölvert að sér vegið varðandi Holtsbúðarmálið. Ágætu bæjarfulltrúar við íbúar höfum lagt okkur í líma við að halda okkar máli innan Garðabæjar. Það hefur ekki skilað okkur neinu, þið hafið ekki virt það við okkur.

Framganga bæjaryfirvalda í Garðabæ og einbeittur vilji þeirra að koma sínum málum í gegn með stjórnsýsluklækjum, er ekki fólki bjóðandi. Okkur þykir sárt að vita að fólk í launuðu starfi geti verið að vinna markvist gegn okkar hagsmunum. Fyrsta aðkoma okkar íbúa að starfsemi á umræddu svæði var 2009, þegar við mótmæltum gengdarlausum veisluhöldum í skáta­heimilinu. Mótmæli okkar leiddu til þess að drykkjulæti og hávaði var stoppaður. Það sem við hins vegar upplifum núna, er vilji bæjaryfirvalda, að auka verulega við starfsemi á svæðinu, með stækkun á skátaheimili og betra aðgengi að umræddum sal og aukinni starfsemi skáta. Að lokum berst okkur grenndarkynning vegna stækkunnar á leikskólanum Bæjarbóli og ekki hlustað á athugasemdir okkar eða rætt við okkur um lausnir á vandamálum svæðisins, aðeins bætt við þau.

Það sem við íbúar við Silfurtún – Hofstaðamýri förum fram á:

 

Að starfsemi á svæðinu verði ekki aukin.

 

Að íbúar í Garðabæ eins og í öllum öðrum samfélögum eigi að njóta sömu réttinda og hafa sömu skydur, þar sem þeim kostum og göllum, sem fylgja því að búa í bæjarfélagi sé skipt eðlilega á íbúa. Gæta verður meðlhófs þegar samfélagslegri starfsemi er dreift niður á hverfi sveitafélaga.

 

Að jafnræðis sé gætt í ákvarðanatökum í bænum.

 

Að bæjarfulltrúar tali við okkur með virðingu.

Að tekið verði tillit til athugsemda okkar.

Sóley Björg Færseth og Hrefna Geirsdóttir

Íbúar í Faxatúni



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×