Innlent

Óljós ákvæði og óásættanleg

Óljóst þykir hvenær framboð búvara er ekki nægjanlegt.
Óljóst þykir hvenær framboð búvara er ekki nægjanlegt.
Bændasamtök Íslands leggjast alfarið gegn samþykkt frumvarps um breytingu á búvörulöggjöf og tollalögum í óbreyttri mynd. Í umsögn samtakanna um frumvarpið segir að taka verði til endurskoðunar þau ákvæði þess sem lúta að skilgreiningu á hvenær framboð búvara er ekki nægjanlegt.

Í frumvarpinu segir að framboð teljist ekki nægjanlegt sé viðkomandi vara ekki til stöðugrar dreifingar í að lágmarki 90% magni af eftirspurn. Í athugasemdum með frumvarpinu segir jafnframt að vara sé ekki í boði á innanlandsmarkaði í nægjanlegu magni sé hún eingöngu fáanleg frá einum innlendum framleiðanda. Þetta segja Bændasamtökin óásættanlegt.

Benda þau á að íslenskir bændur hafi leitast við að auka hagkvæmni framleiðslu sinnar um árabil þannig að í sumum búgreinum sé jafnvel aðeins einn framleiðandi eða einn dreifingaraðili á tilteknum vörum. Samtökin segja einnig óljóst hvað 90% af eftirspurn þýði.

Samtök verslunar og þjónustu, SVÞ, telja viðmiðin hugsanlega ígildi tæknilegra hindrana og segja þau varhugaverð.

Í umsögn SVÞ um frumvarpið segir að verði umrætt frumvarp samþykkt óbreytt liggi fyrir að viðhaldið verði flóknu tollakerfi. Til bóta yrði að taka umrætt tollakerfi til heildarendurskoðunar og í samráði við hagsmunaaðila.- ibs



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×