Viðskipti innlent

Olíugjald á steinolíu verður skoðað

Huginn Freyr Þorsteinsson
Huginn Freyr Þorsteinsson
Olíugjald gæti verið lagt á steinolíu á næstu misserum. Mjög hefur færst í vöxt að steinolía sé notuð sem eldsneyti á dísilbíla en á næstunni verður gjaldkerfið að baki samgönguframkvæmdum tekið til endurskoðunar.

„Þetta verður bara tekið til skoðunar eins og annað. Eins og kom fram í nýútkominni skýrslu um hátt bensínverð stendur núverandi gjaldkerfi ekki undir þeim samgönguframkvæmdum sem menn hafa viljað ráðast í. Það er því ljóst að hvort sem það er steinolía eða annað þá þarf að innheimta gjöld af þessum orkugjöfum því meira sem bílaflotinn skiptir yfir í þá,“ segir Huginn Freyr Þorsteinsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra.

Huginn segir víða standa yfir endurskoðun á þessum málum. „Í Evrópu til dæmis er stefnt að því að menn greiði fyrir notkun á vegakerfinu en sú tækni er ekki alveg tilbúin.“ Sala á steinolíu hefur aukist verulega á síðustu árum en í fyrra var hún tíu sinnum meiri en árið 2005. Aukningin skýrist af því að færst hefur í vöxt að steinolía sé notuð á eldri dísilbíla, ýmist hrein eða blönduð í dísil, enda er lítrinn af steinolíu tugum króna ódýrari en dísilolíulítrinn.

Ekkert olíugjald leggst á steinolíu enda er hún ekki ætluð sem eldsneyti fyrir ökutæki. Olíugjaldið er 55 krónur á hvern lítra og því hægt að spara talsverðar upphæðir með athæfinu.- mþl





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×