Handbolti

Óli Guðmunds: Draumur að spila svona leik

Henry Birgir Gunnarsson í Split skrifar
Óli klínir vonandi nokkrum í vinkilinn á eftir.
Óli klínir vonandi nokkrum í vinkilinn á eftir. vísir/ernir
Ólafur Andrés Guðmundsson er spenntur fyrir Serbaleiknum og segir gott að íslenska liðið sé með örlög sín í eigin höndum.

„Serbaleikurinn er nýr leikur og verður ekki síður erfiður eins og Króataleikurinn. Úrslitaleikur um að komast í milliriðilinn. Þetta verður drulluerfitt,“ segir Ólafur Andrés en hann veit manna best hversu mikið er undir í þessum leik.

„Það er mikið í boði. Að komast í milliriðil með tvö stig væri nokkuð fínn árangur úr riðlinum. Það er erfitt að mæta Króötum á heimavelli og kannski enginn að ætlast til þess að við myndum vinna þann leik.“

Íslenska liðið hefur leikið vel lengstum á mótinu en slæmu kaflarnir eru ansi langir hjá liðinu.

„Handboltinn er kaflaskiptur. Þetta snýst um að stjórna slæmu köflunum og reyna að minnka þá. Reyna að stoppa þegar það kemur flæði á hitt liðið. Það var synd að kasta þessum Króataleik frá okkur,“ segir Ólafur en hann hefur leikið vel á mótinu á báðum endum vallarins.

„Ég er nokkuð sáttur en maður vill alltaf meira og sér að maður getur betur. Heilt yfir nokkuð sáttur. Það hefur verið róterað mikið og ég finn að ég er léttari á mér er ég spila ekki allan leikinn. Þetta er langt mót og við þurfum að nota alla leikmenn. Það mun skila okkur síðar á mótinu ef við förum í milliriðla. Það er draumur að spila svona leik eins og gegn Serbíu þar sem við erum með þetta í okkar höndum. Þannig viljum við hafa þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×