Innlent

Ólafur Ragnar: Enginn fjárhagslegur ávinningur af því að halda áfram

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók á móti undirskriftarsöfnurum í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tók á móti undirskriftarsöfnurum í dag. mynd/ anton.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segist engan persónulegan, fjárhagslegan ávinning hafa af því að halda áfram sem forseti. Hann hafi verið einlægur þegar hann sagði í nýársávarpi sínu að hann hygðist láta af embætti forseta eftir þetta kjörtímabil.

Ólafur Ragnar sagði að ef hann léti af embætti forseta í sumar yrðu eftirlaun hans álíka mikil og ef hann héldi áfram í embætti. Að því leyti til yrði það fullkomin sjálfboðavinna af hans hálfu ef hann héldi áfram sem forseti.

„Þess vegna væri ég einfaldlega staddur þannig að það væri enginn persónulegur fjárhagslegur ávinningur af því fyrir mig að vera áfram nema siður væri. Ég hefði miklu meira frelsi með því að hætta, ég hefði jafn mikið í eftirlaun eins og ég hefði í embættinu og ef ég yrði áfram þá yrði það um fullkomna sjálfboðaliðsvinnu að ræða," sagði forsetinn og bætti við að hann vissi að allir þeir sem hugleiddu stöðu sína þegar þeir væru að ljúka sínu ævistarfi myndu skilja slíkan þankagang og slíka hugsun.

„Þannig að það er alveg sama hvernig málið er skoðað. Það liggur allt þannig að það það var mín einlæga ósk og allra í fjölskyldunni að þjóðin myndi finna sér aðra vegferð á þessum tímamótum en að ég yrði áfram í þessu embætti," sagði Ólafur Ragnar Grímsson um þá ákvörðun sem hann tilkynnti á nýársdag. Eins og fram kom fyrr í dag hefur hann ákveðið að taka sér nokkurra daga frest til að taka ákvörðun eftir að rúmlega 30 þúsund manns hafa skorað á hann að halda áfram í embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×