Innlent

Ökuníðingurinn á Sólheimasandi fundinn og sektaður eftir utanvegaakstur

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Lögreglunni á Hvolsvelli tókst að hafa hendur í hári ökuníðings sem vakti mikla athygli þegar myndband birtist á Vísi þar sem hann stundaði utanvegaakstur og glannaskap.

„Við lögðum mikla vinnu í þetta en okkur tókst að hafa upp á honum,“ segir Atli Árdal, varðstjóri lögreglunnar á Hvolsvelli, í samtali við Vísi. „Við vorum í sambandi við bílaleiguna.“ Auk bílaleigunnar starfaði embættið með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og á suðurnesjum. Maðurinn, sem er Bandaríkjamaður á fertugsaldri, greiddi sekt eftir að hafa fengið símtal frá lögreglunni. „Hann brást illa við,“ segir Atli spurður um viðbrögð mannsins við símhringingunni. Að sögn Atla sljákkaði þó í honum þegar lögregla mætti á staðinn. „Þá gekkst hann við þessu og féllst á að greiða sektina.“ Samkvæmt heimildum Vísis hljóðaði sektin upp á 250 þúsund íslenskra króna. 

Í frétt Vísis var rætt við kvikmyndagerðamanninn Alferð Möller hjá Lifestyle Films sem náði utanvegaakstrinum á Sólheimasandi á myndband, en þar sést hvernig bílstjórinn keyrir hring eftir hring með tilheyrandi jarðrofi.  



Í samtali við Vísi segir Alfreð að ökumaðurinn og farþegarnir þrír sem voru innanborðs hafi ekið töluvert áður en hann tók upp myndavélina og hafi verið hinir hressustu við hringspólið. „Svo slógu þeir bara höndunum saman, gáfu hvorum öðrum „High-five“ og keyrðu í burtu,“ segir Alfreð.

Maðurinn er farinn úr landi. 



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×