Innlent

Ökumaður slapp með skrekkinn þegar stór flutningabíll valt við Reynisfjall

Gissur Sigurðsson og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Frá vettvangi á þjóðveginum við Reynisfjall.
Frá vettvangi á þjóðveginum við Reynisfjall. Mynd/Bryndís Fanney
Ökumaður á stórum flutningabíl, slapp nær ómeiddur þegar bíll hans valt rétt ofan við Vík í Mýrdal um miðætti. Hann komst af sjálfdáðum út úr bílnum.

Bíllinn var lestaður fiskikörum, fullum af ísuðum fiski, og voru björgunarsveitarmenn úr nágrenninu kallaðir út og hófust handa klukkan fimm í nótt við að tína fiskinn saman og setja yfir í annan flutningabíl.

Búast má við að þjóðveginum verði lokað undir hádegi á meðan stórir kranabílar ná flutningabílnum upp á veg aftur. Tildrög þess að svona fór liggja ekki fyrir en bíllinn var í beygju þegar ökumaðurinn missti stjórn á honum.

Rigning, hvassviðri og lélegt skyggni voru á þessum slóðum þegar þetta gerðist.

Ökumaðurinn slapp ótrúlega vel.Mynd/Bryndís Fanney
„Þetta var ekki fallegt að sjá, mikill fiskur og kjötmeti út um allt. En heppinn bílstjórinn að sleppa,“ segir Orri Örvarsson hjá björgunarsveitinni Víkverja í Vík í Mýrdal.

Hann segir fiskinn og kjötið ekki hafa dreifst á stórt svæði.

„En bíllinn fór alveg á hvolf og vagninn sprakk alveg í sundur. Það dreifðist úr þessum körum. Við erum búin að vera í nótt að tína þetta saman. Við náðum að bjarga töluverðu af þessu. Það kom góður mannskapur að tína saman í kör. En það er alltaf eitthvað svolítið skemmt.“

Orri segir flutningabíla stundum lenda í vandræðum á þessum slóðum á veturna en mjög sérstakt sé að þetta gerist að sumri til. Sem fyrr segir slapp ökumaðurinn ótrúlega vel.

„Það var ekki skráma á honum. Það bjargaði honum að vera í belti því farþegamegin fór bíllinn alveg í klessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×