Skoðun

Ögurstund

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Ísland er um margt einstaklega gott samfélag. Í slíku samfélagi ríkja velferð, lýðræði og mannsæmandi kjör. En ekkert varir án þess að að því sé hlúð.

Í markaðssamfélagi, kapítalismanum, sækja peningaöflin inn á öll svið samfélagsins til að ávaxta sitt pund, ota sínum tota, viðhalda forréttindum hinna ríku og auka mismunun. Pólitísk öfl taka sér stöðu með forréttindum, með hinum ríku beita sér í þágu peningaafla og sérhagsmuna. Við höfum séð mýmörg dæmi um slíkt á þessu kjörtímabili.

Innlend og erlend peningaöfl sækja inn á svið velferðar og auðlinda, ekki síst inn í heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Pólitísk velvild greiðir götu slíkrar viðleitni með ófyrirséðum afleiðingum. Mennta- og heilbrigðiskerfi fyrir alla er nefnilega líka lýðræðismál því öflugir innviðir af því tagi styrkja verulega möguleika fólks til þátttöku í lýðræðissamfélagi. Ekki bara á kjördag heldur alltaf.

Réttlátt skattkerfi er hornsteinn velferðarsamfélaga. Þeir sem nóg hafa og meira en nóg borga meira til samneyslunnar sem er hugsuð til þess að jafna kjör og tryggja velferð allra án tillits til efnahags. Núverandi stjórnvöld hafa ítrekað lýst afstöðu sinni gegn auðlegðarskatti og þrepaskiptu skattkerfi að norrænni fyrirmynd. Á Íslandi hafa forystumenn beggja stjórnarflokkanna sýslað með sitt persónulega fé í gegnum aflandsfélög í skattaskjólum og styðja þar með starfsemi sem grefur undan velferðarsamfélögum um heim allan. Hvorugur telur nokkuð athugavert við slíkan veruleika og flokkarnir báðir hafa leynt og ljóst varið starfsemi af þessu tagi.

Forystumenn stjórnarflokkanna eru augljóslega ekki hluti af samfélaginu. Þeir deila ekki kjörum með öllum almenningi. Þeir tala eins og 300.000 krónur í mánaðarlaun, fyrir fullan vinnudag, setji hér allt á hliðina en segjast gleyma tugum og hundruðum milljóna í sínum eigin fjárhag.

Boðaðar kosningar í haust fara fram á ögurstundu í tilveru þjóðar. Aldrei hefur verið jafnskýrt að ráðamenn tilheyra forréttindastétt fárra og ríkra í samfélaginu. Að þeir draga taum sérhagsmuna á kostnað almannahagsmuna. Um þetta verður kosið í haust.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×