Fótbolti

Ögmundur verður í markinu í Konya

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ögmundur Kristinsson hefur verið í banastuði hjá Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni.
Ögmundur Kristinsson hefur verið í banastuði hjá Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni. Vísir
Ögmundur Kristinsson, markvörður Hammarby, mun samkvæmt heimildum Vísis standa á milli stanganna í fjarveru Hannesar Þórs Halldórssonar gegn Tyrkjum í undankeppni EM í kvöld. Hannes Þór fór úr axlarlið á æfingu landsliðsins á sunnudag og verður frá í nokkurn tíma.

Þrír markverðir eru í hópnum en auk Ögmundar eru Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, og Róbert Örn Óskarsson, markvörður FH, í hópnum. Uppselt er á leikinn þar sem líklega í kringum 130 íslenskir stuðningsmenn munu gera sitt besta á pöllunum í baráttu við 41 þúsund Tyrki.

Aron Einar Gunnarsson kemur aftur inn í liðið en hann tók út leikbann í 2-2 jafnteflinu gegn Lettum á Laugardalsvelli á laugardaginn. Reikna má með því að Emil Hallfreðsson fari á varamannabekkinn vegna innkomu fyrirliðans.

Jón Daði Böðvarsson og Kári Árnason hafa báðir glímt við minniháttarmeiðsli en gert er ráð fyrir að báðir verði klárir í slaginn í kvöld. Reiknað er með því að Kári hefji leik við hlið Ragnars. Verði breyting á líðan Kára verður Sölvi Geir Ottesen í vörninni með Ragnari.

Þá er reiknað með því að Jón Daði komi inn í liðið fyrir Alfreð Finnbogason sem byrjaði á laugardaginn.

Líklegt byrjunarlið Íslands í kvöld

Markvörður: Ögmundur Kristinsson



Hægri bakvörður: Birkir Már Sævarsson

Vinstri bakvörður: Ari Freyr Skúlason

Miðvörður: Kári Árnason

Miðvörður: Ragnar Sigurðsson

Miðjumaður: Aron Einar Gunnarsson

Miðjumaður: Gylfi Þór Sigurðsson

Hægri kantur: Jóhann Berg Guðmundsson



Vinstri kantur: Birkir Bjarnason

Framherji: Jón Daði Böðvarsson

Framherji: Kolbeinn Sigþórsson

Leikurinn hefst klukkan 18:45 og verður vitanlega í beinni textalýsing á Vísi.


Tengdar fréttir

Tyrkir ósigraðir í Konya

Hinn glæsilegi Torku Arena var vígður í fyrra og Tyrkjum líkar greinilega vel við að spila í Konya.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×