Innlent

Ofurtunglið verður ekkert kvikmyndatungl

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Tunglið er fallegt og heillandi. Stundum er það stórt, stundum er það lítið, stundum er það eins og appelsína og stundum eins og banani. Vísir heyrði í Sævari Helga Bragasyni, formanni Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, varðandi ofurtunglið sem mun birtast landsmönnum á morgun.

Á vef Guardian er sagt að tunglið verði það stærsta í 68 ár og þeir sem ekki eru komnir á eftirlaunaaldur munu aldrei hafa séð jafn stórt og bjart tungl.

Vísir bar þetta undir Sævar sem segir að fólk muni ekki sjá mikinn mun á ofurtunglinu og fulla tunglinu sem verður t.a.m. í næsta mánuði. 

„Þetta er eins og munurinn á 15 tommu og 16 tommu pítsu. Maður sér muninn ef þær eru hlið við hlið.“ segir Sævar og bendir á að tunglið verði ekki eins og ofurtunglin sem við sjáum í kvikmyndunum. 

„Þetta er eitthvað sem gerist á hverju einasta ári en núna hefur fullt tungl, eins og það er á morgun, ekki verið nær okkur síðan í janúar 1948. Þá verður það 48 km nær okkur heldur en það var þá. Munurinn á minnsta og fjarlægasta fulla tungli ársins og svo stærsta og nálægasta er svo hverfandi lítill að það tekur enginn eftir muninum.“ 

Vísir hafði samband við veðurfræðing sem sagði að það verði skýjað á landinu annað kvöld en þó nokkrar glufur verða einnig. Þá verður skyggni best á norður og austurlandi.

Sævar Helgi bendir samt sem áður á að tunglið sé alltaf fallegt og hvetur hann landsmenn til að líta sem oftast til tunglisins og njóta þess að horfa á það.

Hægt er að lesa grein um ofurtunglið eftir Sævar á vefsíðu Stjörnuskoðunarfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×