Viðskipti innlent

Ofhitnun hagkerfisins mesti skaðvaldurinn

Ingvar Haraldsson skrifar
Þórarinn G. Pétursson segir brýnt að hagkerfið sé vel undirbúið þegar áföll ríði yfir.
Þórarinn G. Pétursson segir brýnt að hagkerfið sé vel undirbúið þegar áföll ríði yfir. fréttablaðið/pjetur
Ofhitnun hagkerfisins er algengasti fyrirboði fjármálakreppa hér á landi. Þetta er meðal niðurstaðna greiningar Seðlabankans á fjármálakreppum frá 1875-2013.

„Það birtist helst í því að efnahagsleg umsvif eru of mikil. Of hraður hagvöxtur, of mikill viðskiptahalli og of mikil aukning eftirspurnar sem þá er orðin ósjálfbær og leiðréttist með snörpum hætti,“ segir Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans og einn rannsakenda.

„Einn af lærdómunum er að leyfa þessu ekki að gerast eins og hefur því miður allt of oft gerst,“ bætir hann við.

Skýrt dæmi um ástandið þá var fram að bankahruninu 2008, sem Þórarinn sagði að væri „móðir allra fjármálakreppa“. Öll viðvörunarljós hafi verið byrjuð að blikka nokkrum árum fyrir hrunið.

Fimm af sex „fjölþættum“ fjármálakreppum sem urðu á tímabilinu á Íslandi gerðust samhliða kreppum í alþjóðlega fjármálakerfinu. Þórarinn segir að Íslendingar geti gert ýmislegt til að vera undirbúnir þegar slík áföll verði erlendis. „Það er ekkert náttúrulögmál þótt það verði fjármálakreppa í útlöndum að það verði hér. Því þurfum við að búa til kerfi sem getur staðið af sér áföll. Við þurfum að draga úr áhættutöku og styrkja eiginfjárgrunn fjármálakerfisins,“ segir Þórarinn. Þá þurfi einnig að koma í veg fyrir að bankakerfið sé fjármagnað í of miklum mæli erlendis.

Þórarinn býst ekki við að hægt verði að koma alfarið í veg fyrir fjármálakreppur. „Ég held að þetta sé eitthvað að við verðum að búa við,“ segir Þórarinn. Eina leiðin að hans mati til að koma í veg fyrir fjármálakreppur sé að vera ekki með fjármálakerfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×