Erlent

Ofbeldi lögregluþjóna á svörtum hermanni leiddi til mikilla mótmæla - Myndband

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndband af lögregluþjónum veitast að svörtum hermanni í Tel Aviv í Ísrael leiddi til mikilla mótmæla í gær. Meira en þúsund gyðingar af eþíópískum uppruna mótmæltu á götum borgarinnar og til átaka kom á milli mótmælenda og lögreglu. Lögreglan segir 57 lögreglumenn hafa særst og tólf mótmælendur.

Að mestu voru meiðsli þeirra þó minniháttar en samkvæmt CNN voru 43 mótmælendur handteknir.

Á myndbandinu má sjá hvernig lögreglumenn réðust á hermann af eþíópískum uppruna. Hann stendur á götunni við hjól sitt og lögregluþjónn veður að honum og snýr hjólinu við og ýtir honum í hina áttina. Ekkert hljóð er á myndbandinu svo ekki liggur fyrir hver segir hvað en lögregluþjónninn ræðst mjög fljótt að hermanninum sem heitir Damas Pakada, og slær hann nokkrum sinnum og rífur hann niður í jörðina. Annar lögreglumaður kemur hinum fljótlega til hjálpar.

Talsmaður lögreglunnar í Tel Aviv segir að búið sé að segja öðrum lögregluþjóninum upp.

Mótmælendur halda því fram að mjög illa sé komið fram við gyðinga frá Eþíópíu, en samtals eru þeir um 125 þúsund í Ísrael. Þau segja að þeim líði eins og annars flokks borgurum. Fjöldi Eþíópíubúa komu til Ísrael á níunda og tíunda áratugunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×