Innlent

Oblivion heimsfrumsýnd í kvöld - Tom Cruise á leið til landsins

„Þetta er mikill heiður fyrir okkur og kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi," segir Jón Eiríkur Jóhannesson, rekstrarstjóri Smárabíós.

Stórmyndin Oblivion, sem skartar meðal annars Tom Cruise og Morgan Freeman í aðalhlutverki verður heimsfrumsýnd á Íslandi í kvöld, nánar tiltekið í Smárabíói.

Eins og flestum Íslendingum er kunnugt um var myndin tekin upp að stórum hluta hér á landi síðasta sumar. Myndin verður frumsýnd þann 12. apríl næstkomandi en í kvöld fá nokkrir heppnir Íslendingar forskot á sæluna.

Tom Cruise er væntanlegur til landsins síðdegis til þess að vera viðstaddur sýninguna í kvöld. Jón Eiríkur segir að með þessu vilji Tom Cruise þakka Íslendingum fyrir þá gestrisni sem honum var sýnd á meðan hann var við tökur á myndinni.

„Þetta var eitthvað sem kom upp mjög nýlega og erum við í skýjunum yfir þessu. Það er ekki á hverjum degi sem stórstjörnur á borð við Tom Cruise þakka fyrir sig á þennan hátt," segir hann.

Sýningin í Smárabíó er í samstarfi við Vísi, en um boðssýningu er að ræða. Það þýðir að 100 miðar á myndina eru ókeypis og lesendur Vísis geta tryggt sér miða með því að senda póst á ritstjorn@visir.is.

Þeir sem ekki ná í miða hjá Vísi geta freistað þess að fara í Smáralindina eftir klukkan 17 og keypt miða í miðasölunni.

Sýningin í kvöld hefst klukkan 20 og verður nánar fjallað um hana á Vísi í kvöld, þar sem meðal annars verður rætt við Tom Cruise.

Oblivion er ein stærsta mynd þessa árs og er íslensk náttúra fyrirferðarmikil í þessum vísindaskáldskap, þar sem Ísland er í hlutverki Norður-Ameríku eftir að heimsstyrjöld hefur grandað allri siðmenningu.

Sjá má stiklu úr myndinni hér að ofan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×