Innlent

Obama lægði kynþáttaöldur með bjór

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, leysir málin með bjór og skilningi.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, leysir málin með bjór og skilningi.
Barack Obama gerði sér lítið fyrir og bauð þeldökka háskólakennaranum Henry Louis Gates og hvíta lögregluþjóninum Jim Crowley heim í Hvíta húsið til bjórdrykkju eftir að þeim síðarnefndu hafði lent saman, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

Gates, sem er prófessor við Harvard, hafði verið handtekinn við heimili sitt eftir að vitni sá hann reyna að brjótast þar inn.

Gates var síðan færður í varðhald eftir að hann sakaði lögregluþjóninn Crowley sem bar að garði um kynþáttafordóma.

Nokkuð hefur borið á málinu vestan hafs vegna umræðu á báða bóga um fordóma lögreglu.

Meira að segja Obama var gagnrýndur fyrir að hafa sagt við blaðamenn að honum þætti handtakan heimskuleg og hann sakaður um að vita ekki staðreyndir málsins.

Obama gerði svo tilraun til að leysa málið með því að bjóða öllum aðilum málsins til bjórdrykkju að heimili sínu í Hvíta húsinu í gær.

Hittingur mannanna var kallaður „Bjórfundurinn" í fjölmiðlum, en Obama vísaði því á bug:

„Þetta er skemmtilega til orða tekið, en þetta er ekki fundur, strákar. Þetta eru bara þrír menn að fá sér drykk að degi loknum og gefur okkur vonandi færi á að hlusta hvert á annað," segir Obama.

„Þetta er tilraun til að eiga persónuleg samskipti þegar eitthvað mál er orðið svo stórt og táknrænt að maður gleymir því að aðilar málsins eru bara fólk, þar á meðal ég sjálfur, sem allt hefur sína galla."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×