Innlent

Nýr ræðustóll Alþingis hannaður fyrir hjólastóla

Brjánn Jónasson skrifar
Freyja Haraldsdóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, þurfti að flytja jómfrúrræðu sína úr sæti sínu í fyrra þar sem ræðupúlt Alþingis var ekki hannað með fólk í hjólastól í huga.
Freyja Haraldsdóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, þurfti að flytja jómfrúrræðu sína úr sæti sínu í fyrra þar sem ræðupúlt Alþingis var ekki hannað með fólk í hjólastól í huga. Fréttablaðið/Vilhelm
Starfsmenn Alþingis þurftu að hafa hraðar hendur og setja gamla ræðustólinn upp aftur eftir að þing var kallað saman til að setja lög á verkfall flugvirkja í gær.

Stóllinn hafði verið tekinn niður þar sem til stendur að setja upp nýjan ræðustól sem hentar meðal annars fólki í hjólastól, segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.

„Stóllinn var horfinn á braut, en við brugðumst skjótt við og hann er kominn á sinn stað aftur,“ segir Helgi. Hann segir nýjan stól verða kominn upp í þingsalnum fyrir haustið. Betra pláss er við nýja stólinn til að koma hjólastól að honum, auk þess sem hægt er að lækka hann svo mikið að fólk í hjólastól getur flutt ræður úr honum.

Helgi segir að þrátt fyrir breytingar geti Alþingi ekki uppfyllt allar kröfur sem gerðar eru til nýrri bygginga um aðgengi fyrir fatlaða, húsið sé gamalt og þröngt og því takmörk fyrir því hvað hægt sé að gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×