Erlent

Nýnasistar skreyta sig með íslenska fánanum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Fatnaður frá Thor Steinar er vinsæll meðal nýnasista
Fatnaður frá Thor Steinar er vinsæll meðal nýnasista Mynd recherche-nord
Þýskir nýnasistar hafa tekið ástfóstri við fatnað frá framleiðandanum Thor Steinar. Athygli vekur að í nýjustu línunni prýðir íslenski fáninn nokkrar flíkurnar.

Thor Steinar hefur verið umdeilt fyrirtæki allt frá stofnun þess árið 2002. Tveimur árum síðar var lagt bann við því að ganga í fatnaði merktum Thor Steinar víða í Þýskalandi vegna þess hversu vörumerkið líktist merkjum sem einkenndu stormsveitir Hitlers. Eftir það var skipt um vörumerki en nýnasistar halda tryggð sinni við fatnaðinn. Í dag er bannað að mæta í fatnaði Thor Steinar á leiki ýmissa þýskra knattspyrnuliða, svo sem Werder Bremen, Hertha Berlin og Borussia Dortmund.

Eigendur fyrirtækisins neita því hinsvegar staðfastlega að tengjast nasisma eða þjóðernishyggju.

Auk íslenska fánans hefur norski fáninn verið prentaður á fatnað Thor Steinar. Jens Stoltenbert, fyrrverandi forsætisráðherra Norðmanna, var kunngert um þetta árið 2006 og lýsti hann yfir miklum áhyggjum af því að norsk tákn væru misnotuð í þágu nasista.

Norska ríkið höfðaði í framhaldinu mál gegn Thor Steinar og krafðist þess að hætt væri að nota norska fánann á fatnað fyrirtækisins. Norðmenn töpuðu málinu en forsvarsmenn Thor Steinar gáfu engu að síður út yfirlýsingu um að þeir myndu hætta að prenta fánann á fötin. Í staðinn virðast þeir hafa snúið sér að íslenska fánanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×