Körfubolti

Nýliðarnir búnir að bursta bæði Keflavík og Njarðvík í haust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik Olson, þjálfari FSu.
Erik Olson, þjálfari FSu. Mynd/youtube.com/ISLkarfan
Nýliðar FSu eru komnir í fjögurra liða úrslit Lengjubikars karla í körfubolta en þetta er í fyrsta sinn í sögu Fyrirtækjabikars karla þar sem Selfoss-liðið er meðal hinna fjögurra fræknu.

FSu komst á úrslitahelgi Lengjubikarsins með því að vinna 35 stiga sigur á Njarðvík í Iðu í gærkvöldi en þetta var fjórði sigur FSu-liðsins í röð í keppninni.

Það sem vekur ekki síður athygli er að FSu er búið að bursta bæði Reykjanesbæjarliðin á einni viku því FSu vann 31 stigs sigur á Keflavík viku fyrr. Í millitíðinni vann FSu síðan sigur á 1. deildarliðum Skallagríms og Breiðabliks.

Það eru hinsvegar sigrarnir á Keflavík og Njarðvík sem standa upp úr enda ekki mörg félög til sem hafa náð að vinna 30 stiga sigri á þeim báðum á einni viku.

FSU vann 112-91 sigur á Keflavík 22. september þar sem Cristopher Caird skoraði 39 stig, Christopher Anderson var með 29 stig og Hlynur Hreinsson skoraði 16 stig.

Í 113-78 sigri FSu á Njarðvík í gær þá var Christopher Anderson með 27 stig, Cristopher Caird skoraði 20 stig, Ari Gylfason var með 18 stig og Birkir Víðisson skoraði 17 stig.

FSu skoraði 19 þriggja stiga körfur úr 40 tilraunum í sigrinum á Keflavík (48 prósent) og 16 þriggja stiga körfur úr 36 tilraunum (44 prósent) í sigrinum á Njarðvík.

Erik Olson, þjálfari FSu, er greinilega búinn að undirbúa sitt lið frábærlega fyrir tímabilið en liðið var svolítið óskrifað blað fyrir veturinn enda ekki með mörg "stór" nöfn innanborðs.

Cristopher Caird og Christopher Anderson er öflugir leikmenn sem hafa báðir skorað 24 stig að meðaltali í Lengjubikarnum. Það hafa bara tveir leikmenn skorað fleiri stig í leik í keppninni til þessa eða þeir Tobin Carberry hjá Hetti (33,2) og Sherrod Nigel Wright hjá Snæfelli (26,5).

FSu mætir Stjörnunni í undanúrslitunum á heimavelli sínum í Iðu á föstudagskvöldið og með sigri væru nýliðar í úrslitaleik Lengjubikarsins annað árið í röð.

Tindastóll komst alla leið í úrslitaleikinn í fyrra og endaði síðan einnig í 2. sæti á eftir KR í bæði deildinni og í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×