Viðskipti innlent

Nýherji snýr tapi í hagnað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Á undanförnum árum hefur rekstur Nýherja markast af miklum sveiflum sem torvelda samanburð milli ára. Engu að síður er ljóst að síðasta rekstrarár er eitt það besta í ríflega 20 ára sögu félagsins og mjög jákvæður viðsnúningur frá árinu 2013,“ segir Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja. Fyrirtækið birti ársuppgjör sitt í dag.

Heildarhagnaður Nýherja á síðasta ári nam 259 milljónum króna á síðasta ári og var hagnaðurinn 110 milljónir á fjórða fjórðungi. Þetta er algjör viðsnúningur frá árinu á undan þegar heildartap á árinu nam 1.608 milljónum króna en tap á fjórða fjórðungi var 496 milljónum.

EBITDA nam 827 milljónum króna á árinu 2014 og 241 milljón króna á fjórða ársfjórðungi, en var 302 milljónir króna árið á undan og 58 milljónir króna á síðasta fjórðungnum árið á undan.

Vöru- og þjónustusala á árinu nam 11.572 milljónum króna og 3.315 milljónum á fjórða ársfjórðungi, en var 10.940 milljónir króna árið á undan og 3.052 milljónir á fjórða fjórðungnum. 

Finnur segir þó að mörg skref séu eftir til að treysta efnahags félagsins. „Þótt stór skref hafi verið stigin á síðasta ári, er umtalsverð vinna eftir, til að treysta afkomu og bæta eiginfjárstöðu félagsins, sem er of lág. Þar horfum við til áframhaldandi hagræðingar í rekstri og breytinga á félagaskipan Nýherja. Aðskilnaður rekstrar TEMPO frá TM Software ehf. er mikilvægt skref í þessari vegferð,“ segir Finnur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×