Skoðun

Ný torg, fögur borg

Páll Torfi Önundarson skrifar
Forsætisráðherra lýsti nýverið fagurfræðilegri sýn sinni á miðborg Reykjavíkur. Nánar tiltekið gagnrýndi hann teikningar, sem birst hafa af stórhuga fyrirætlunum í Austurhöfn Kvosarinnar. Það er vel að slíkur maður skuli tjá sig um borgarskipulag.

Sá sem þetta ritar birti í Morgunblaðinu 27. júlí sl. hugmynd að því hvernig nýta mætti Austurhöfnina til þess að bæta mannlífið í Reykjavíkurborg. Það yrði gert með því að byggja alls ekki á austurhluta lóðarinnar, rífa svarta kumbaldann á Lækjartorgi og varðveita gömlu hafnargarðana ofanjarðar. Hugsanlega mætti skapa þar síki eða opna gamla lækinn í einhverjum skilningi. Myndskýringar fylgdu, sem má sjá á https://blog.pressan.is/arkitektur/2015/08/04/horputorg-og-hafnargardurinn/.

Þar sem stór hluti Reykvíkinga les ekki Morgunblaðið og betri myndir liggja nú fyrir af væntanlegum byggingum (birtar á fésbókarsíðu arkitekta) ákvað ég að skýra aftur út hugmynd mína að samfelldu Hörputorgi, nýjum „Hafnargarði“ og Lækjartorgi, sem jafnframt myndi kallast á við og tengjast Arnarhóli á hátíðum borgarbúa.

Mynd 1 sýnir fyrirhugaðar hugmyndir að byggingum. Mynd 2 sýnir hvernig hugsa má sér að nýta sömu teikningu til þess að bjarga miðbæ Reykjavíkur, tryggja útsýni í suður og norður eftir Lækjargötu til Hörpunnar og Esjunnar og hvernig steypa mætti Geirsgötuna í stokk í sveigju undir nýja „Hafnargarðinn“ (en holan hefur verið grafin þar að hluta nú þegar). Væri farið eftir útfærslu myndar 2 myndi Lækjargatan kallast á við Hörpuna og Esjuna, og Arnarhóllinn og „Hafnargarðurinn“ nýi á við gömlu höfnina.

Það virðist nokkuð í tísku nú, að breyta Reykjavíkurþorpinu í safn sundurleitra húsa, sem ná háum hæðum og skyggja á ljós og sól. Mín skoðun er sú að þetta þurfi að fyrirbyggja í kvosinni. Þar eigi að varðveita gamlan byggingarkúltúr án þess að nýbyggingar beri gamla tímann ofurliði. Sendi ég því forsætisráðherra og borgarstjóra hér með þessa tillögu í veikri von þess að hún hafi einhver áhrif á þankagang ráðamanna.




Skoðun

Sjá meira


×