Innlent

Ný rannsókn sögð tímamót í baráttunni gegn krabbameini

Bjarki Ármannsson skrifar
Vísindasamfélagið telur sig nú búa yfir því sem næst tæmandi lista yfir þau gen sem geta breytt brjóstafrumum í krabbameinsfrumur.
Vísindasamfélagið telur sig nú búa yfir því sem næst tæmandi lista yfir þau gen sem geta breytt brjóstafrumum í krabbameinsfrumur. Vísir/Getty
Ný rannsókn er sögð hafa leitt í ljós nær fullkomna mynd af því sem gerist í genum okkar og veldur brjóstakrabbameini. Rannsóknin, sem birt var í læknatímaritinu Nature á dögunum, er sögð marka tímamót í baráttunni gegn brjóstakrabbameini.

Hún fólst í því að alþjóðlegt teymi vísindamanna skoðaði þá þrjá milljarði kirnapara sem mynda erfðamengi mannsins í 560 brjóstakrabbameinstilfellum.

Leitin leiddi í ljós 93 gen, sem geta valdið æxlum ef þau stökkbreytast. Sum þeirra voru þekkt fyrir en vísindasamfélagið telur sig nú búa yfir því sem næst tæmandi lista yfir þau gen sem geta breytt brjóstafrumum í krabbameinsfrumur.

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins er rannsóknin sögð mikilvægt skref í átt að því að búa til ný lyf sem barist geta gegn krabbameini. Prófessor við rannsóknarsetur í Cambridge á Englandi, þar sem rannsóknin hófst, varar þó við því að það muni taka að minnsta kosti áratug að koma slíkum lyfjum á markað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×