Fótbolti

Nú verður hægt að lenda á Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo er langvinsælasti íþróttamaðurinn í Portúgal eftir framgöngu hans með Real Madrid og portúgalska landsliðinu á síðustu mánuðum en vinsældir hans á eyjunni Madeira eru alveg sér á báti.

Á síðustu mánuðum hefur Cristiano Ronaldo unnið Meistaradeildina með Real Madrid og Evrópumeistaratitilinn með Portúgal auk þess að vera einn besti fótboltamaður heims í áratug. Það þarf ekki að koma mikið á óvart að fólkið sem býr á hans æskustöðum sé ánægt með sinn mann.

Cristiano Ronaldo bjó í úthverfi Funchal á eynni Madeira fyrstu tólf ár ævi sinnar eða þar til að knattspyrnuhæfileikar hans uppgötvuðust á meginlandinu og hann yfirgaf eyjuna.

Stjórnvöld á Madeira tóku á dögunum þá ákvörðun að verðlauna Cristiano Ronaldo fyrir frammistöðu sína en hvað gefur þú manni sem á allt?

Fólkið sem ræður öllu á Madeira fann lausn á því því borgarráð á Madeira ákvað að endurskýra alþjóðaflugvöllinn á eynni. Madeira International Airport verður nú endurskýrður og mun hér eftir heita Cristiano Ronaldo International Airport.

Cristiano Ronaldo er með safn og hótel á Madeira auk þess að það er risastór stytta af honum á besta stað. Nú verður hreinlega hægt að lenda á Cristiano Ronaldo í framtíðinni.

Það er í raun ekkert eftir nema að nefna alla eyjuna eftir Cristiano Ronaldo en ætli Portúgal þurfi ekki að vinna heimsmeistaratitilinn í fótbolta til að slík ákvörðun yrði í umræðunni á Madeira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×