Erlent

Norður-Kórea kvartar til SÞ vegna nýjustu myndar Rogen og Franco

Atli Ísleifsson skrifar
Í kvikmyndinni eru karakterar Seth Rogen og James Franco ráðnir til starfa af bandarísku leyniþjónustunni til að ráða Kim Jong-un af dögum
Í kvikmyndinni eru karakterar Seth Rogen og James Franco ráðnir til starfa af bandarísku leyniþjónustunni til að ráða Kim Jong-un af dögum Vísir/AFP
Sendiherra Norður-Kóreu hjá Sameinuðu þjóðunum hefur lagt inn formlega kvörtun til aðalritara Sameinuðu þjóðanna vegna væntanlegrar kvikmyndar með þeim Seth Rogen og James Franco í aðalhlutverki. Segir sendiherrann kvikmyndina hvetja til hryðjuverka gegn Norður-Kóreu.

Söguþráður kvikmyndarinnar, sem ber heitið Viðtalið (e. The Interview), gengur út á að sjónvarpsþáttastjórnandi, leikinn af Franco, og framleiðandi, leikinn af Rogen, tryggja sér rétt á viðtali við Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, en verða fljótlega ráðnir til starfa af bandarísku leyniþjónustunni til að ráða Kim af dögum.

Þó að ekki ætti að fara fram hjá nokkrum að um gamanmynd sé að ræða þá er sendiherranum ekki skemmt. „Að heimila framleiðslu og dreifingu slíkrar kvikmyndar um morð á sitjandi leiðtoga fullvalda ríkis ætti að vera álitið ódulda stuðningsyfirlýsingu við hryðjuverk og stríð.“

Hvetur sendiherrann bandarísk yfirvöld til að banna dreifingu myndarinnar, eða þá gerast ábyrg fyrir því að hvetja til og styðja við hryðjuverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×