Lífið

Norðlenskt stuð á Kringlukránni

Stefán Jónsson og Lúdó árið 1990. MYND/Fréttablaðið.
Stefán Jónsson og Lúdó árið 1990. MYND/Fréttablaðið.

 

Hátt í 300 ára löng norðlensk söngreynsla verður samankomin á einu sviði helgina 4. til 5. september á Kringlukránni.

Þar munu troða upp þau Stefán Jónsson, kenndur við Lúdó, Helena Eyjólfsdóttir, Skapti Ólafsson, Þorvaldur Halldórsson og Geir Ólafsson. Með þeim spila hljómsveit Andra Backmann og Furstarnir.

 

Þau Stefán, Skapti, Helena og Þorvaldur hafa öll sungið í yfir hálfa öld, Andri hefur verið í bransanum í yfir 30 ár og Geir er svo aftur „unglingurinn" í hópnum. Vart þarf að kynna Stefán og Lúdó sem hafa verið heimilisnafn síðan þeir settu tvistinn út. Helena Eyjólfsdóttir er einnig þjóðkunn enda stóð hún lengi vaktina með hljómsveit Ingimars Eydal á Akureyri.

 

Hvað varðar Skapta Ólafsson og Þorvald Halldórsson má nefna að þeir hafa sungið „Allt á fullu" og „Á sjó" frá því að gömlu síðutogararnir voru hámark tækninnar á Íslandi.

 

Til að reyna að létta mönnum kreppuna munu happaþrennur fylgja öllum aðgöngumiðum á þessa skemmtun.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×