Innlent

Nokkur þúsund urðu fyrir árás tölvuþrjóta

Svavar Hávarðsson skrifar
Almenningur verður sífellt að vera á varðbergi gagnvart netárásum hvers konar.
Almenningur verður sífellt að vera á varðbergi gagnvart netárásum hvers konar. nordicphotos/gettyimages
Tölvuþrjótar sendu skilaboð á þúsundir Íslendinga í september í tilraun til að komast yfir aðgangsorð að heimabönkum en uppskera árásarinnar var rýr. Almenningur er berskjaldaðri fyrir netárásum með aukinni snjallsímanotkun.

Þegar vika var liðin af september bárust fréttir af tilraunum tölvuþrjóta til að komast yfir aðgangsorð að heimabönkum. Tölvupóstur var sendur til Íslendinga frá netföngum sem líktust netföngum íslenskra banka. Strax í kjölfarið sendu allir bankarnir ásamt netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar og Ríkislögreglustjóra frá sér sameiginlega fréttatilkynningu, til að vara við árásinni.

Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar Póst- og fjarskiptastofnunar sem netöryggissveitin CERT-ÍS tilheyrir, segir ljóst að pósturinn barst þúsundum manna, en heildarfjöldi þeirra sem fyrir árásinni varð, er ekki þekktur.

„Því miður er það þannig að ekki virðist skipta máli hvort svona póstur er skrifaður á vondri íslensku, fólk smellir samt. Ég held að enginn hafi lent í umtalsverðu tjóni, enda fór strax af stað aðgerð sem lokaði á síðuna sem fólki var ætlað að fara inn á. Aðgerðir okkar miðuðust við það,“ segir Þorleifur.

Þorleifur Jónasson.
Þorleifur játar því að þess séu sýnileg merki að netárásir að utan, og beinast að íslenskum almenningi, séu að breytast í þá átt að óprúttnir aðilar vandi sig meira en áður var og fólk verði því að vera enn betur á varðbergi en áður. Þekkt eru dæmi, t.d. svokölluð Nígeríubréf, þar sem þýðingarvélar eru notaðar til að berja saman skilaboð sem flestir sjá strax í gegnum. Núna virðist þetta vera að breytast, í einhverjum tilvikum. En að fleiru er að hyggja, að sögn Þorleifs. Útbreidd notkun snjallsíma gerir það að verkum að fleiri eru líklegri til að opna svona sendingar. Skjárinn er minni, og viðmótið öðruvísi, svo fleiri virðast falla í gildruna.

Viðmælendur Fréttablaðsins, bæði innan bankanna, stofnana og fyrirtækja, eru sammála um að íslenskur almenningur eigi að vera á verði sem aldrei fyrr. Jafnvel atburður eins og eldgosið í Holuhrauni, með allri þeirri umfjöllun sem því fylgir, getur fjölgað netárásum hérlendis fyrir það eitt að umfjöllun um landið er meiri en ella.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×