Innlent

Noel villtist enn og aftur

Jakob Bjarnar skrifar
Starfsmenn Bláa lónsins ætluðu vart að trúa sínum eigin augum þegar Noel mætti á starfsmannafundinn.
Starfsmenn Bláa lónsins ætluðu vart að trúa sínum eigin augum þegar Noel mætti á starfsmannafundinn.
Ævintýri hins 28 ára ferðalangs frá New Jersey ætla engan enda að taka. Noel Santillan villtist, sem frægt er orðið, alla leið til Siglufjarðar en áfangastaðurinn var Hótel Frón í Reykjavík. Í gær villtist hann aftur, en reyndar um talsvert styttri veg.

„Ég var að fara í Bláa lónið í gær, studdist við GPS tækið og það leiddi mig á rangan stað. Ég endaði í skrifstofuhúsnæði, gekk inn í fundarsal en þar var fundur og mér til furðu voru þar saman komnir starfsmenn Bláa lónsins. Þegar ég knúði dyra horfðu þau á mig undrandi; hvað er þessi maður að vilja? Ég sagði þeim að ég væri að fara í Bláa lónið og þá spurðu þau mig hvort ég væri sá sem hefði ekið alla leið norður á land? Ég sagði þeim að svo væri og þá hlógu þau öll og vildu stilla sér upp á mynd með mér,“ segir Noel og hlær.

Svo, þú hefur villst aftur?

„Já, en nú var það algjörlega GPS-inu að kenna,“ segir Noel.

Vísir grennslaðist fyrir um það hjá starfsfólki Bláa lónsins hvernig þessu var háttað og þá er það svo að skrifstofuaðstaða fyrirtækisins er í Eldborg, hjá hitaveitunni, nær Grindavík. „Hann hefur gleymt að beygja hjá afleggjaranum,“ segir starfsmaður Bláa lónsins; „hann hefur verið að horfa á náttúruna og verið annars hugar. Þetta er mjög vel merkt og ætti ekki að fara fram hjá neinum.“

Í viðtali hjá Rolling Stone tímaritinu

Noel, sem var boðið sérstaklega í Bláa lónið sér að kostnaðarlausu, lét fara vel um sig í heilsulindunum. Og veitti ekki af afslöppuninni því hann hefur varla haft undan að svara fjölmiðlum, úr öllum heimshornum reyndar.

„Ég trúi þessu varla, öll þessi athygli! Ég held að ferð mín sé komin í heimsfréttirnar eftir að þú tókst viðtal við mig. Ég hef talað við íslenska blaðamenn, ég var í útvarpinu hjá gaurunum í Brennslunni FM 957. Svo var haft samband við mig frá BBC. Tvær stöðvar. Einn hringdi í mig frá Kanadíska ríkisútvarpinu. Blaðamaður frá New York Post hringdi, ég ræddi við fréttamenn frá CBS í New York og í morgun talaði ég við blaðamann frá Rolling Stone Magazine. Þeir vildu allir fá ferðasöguna,“ segir Noel og hlær dátt.

Og blaðamaður Vísis getur staðfest þetta, hann hefur vart haft undan við að svara fyrirspurnum frá fjölmiðlum frá öllum heimshornum; allir vilja ná tali af Noel.

Ætlar að reyna að framlengja dvölina

Gærdagurinn var sem sagt undirlagður í að svara fyrirspurnum og veita viðtöl; Noel fór í Bláa lónið í gær og snæddi svo kvöldverð og gekk svo til náða, úrvinda.

„Nóttin í nótt var fyrsta nóttin sem ég fékk almennilegan svefn,“ segir Noel. Bandaríkjamaðurinn er einhleypur og blaðamanni Vísis lék forvitni á að vita hvort einhverjir hafi sett sig í samband við hann, svona í ljósi hinnar nýfengnu og miklu frægðar, með það fyrir augum að komast í nánari kynni við hann? Noel segir að það hafi ekki komið upp ennþá en enginn veit hvað verður. Verkefni dagsins eru þau að reyna að fá flugmiðanum breytt fram á mánudag, en annars flýgur hann af landi brott á morgun.

Ævintýri Noels halda þannig áfram. Hann segist þær góðu viðtökur sem hann hafi fengið á Íslandi verið með hinum mestu ólíkindum. „Allt frá því ég bankaði uppá hjá konunni á Siglufirði og spurðist vegar.“

Nokkrar fréttir sem sagðar hafa verið af Noel

Hér eru fáeinir hlekkir á fréttir sem hafa verið sagðar af ævintýrum Noels á Íslandi, og er þetta langt í frá tæmandi listi, heldur aðeins dæmi.

Bandaríkin:

New York Times

CNET

Bretland:

BBC

Daily Mail

Independent

Danmörk:

TV2

Svíþjóð:

Aftonbladet

Belgía:

Metro

Ítalía:

Macity






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×