Viðskipti erlent

Níu af sautján evrulöndum eiga í kreppu

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og François Hollande, forseti Frakklands, leggja á ráðin.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og François Hollande, forseti Frakklands, leggja á ráðin. Nordicphotos/AFP

Þýskaland og Frakkland, stærstu hagkerfi evrusvæðisins, viðurkenna að samstarf þeirra sé lykillinn að því að ráða fram úr erfiðri stöðu evrulandanna. Ráðamenn eru enn ósammála um forgangsröðun verkefna.

Forseti Frakklands, François Hollande, vill að öll sautján ríki evrusvæðisins samþætti skuldir sínar og vill leyfa hagkerfinu að blómstra, án þess að ráðist sé í niðurgreiðslu skulda af hálfu stjórnvalda, sem myndi skila sér í hærri sköttum, skerðingu á þjónustu og færri tækifæri á atvinnumarkaði.

Angela Merkel er ekki sammála forseta Frakklands um að samþætta skuldir þjóðanna sautján. Hún vill að ríkisstjórnir ráðist í niðurfellingu skulda ríkissjóða áður en lengra er haldið. Nýjustu tölur sýna að hagkerfi evrusvæðisins hefur dregist stöðugt saman síðasta eitt og hálft ár, og níu af sautján Evrulöndum eru í kreppu, þar af er eitt landanna Frakkland.

Hollande, sem er sósíalisti, vill stefna að því til langs tíma að búa til eina allsherjar ríkisstjórn yfir öllu evrusvæðinu. Merkel óttast að slík áform gætu orðið til þess að Þýskaland endi á að borga brúsann fyrir lönd sem standa ekki jafn vel að vígi fjárhagslega.- ósk






Fleiri fréttir

Sjá meira


×