Erlent

Netanyahu segir vopnahlé ekki vera á dagskrá

Atli Ísleifsson skrifar
76 Palestínumenn hafa fallið í árásum Ísraelshers síðustu daga.
76 Palestínumenn hafa fallið í árásum Ísraelshers síðustu daga. Vísir/AFP
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði vopnahlé ekki vera á dagskrá er hann fundaði með þingmönnum utanríkis-og varnarmálanefndar ísraelska þingsins í morgun. Linnulausar loftárásir Ísraelshers á Gasaströndina hafa staðið yfir síðustu daga.

Palestínsk yfirvöld segja tuttugu manns hafa látist í árásum næturinnar, þar af flestir í árás á hús og kaffihús í Khan Younis á suðurhluta Gasa. Tala látinna er nú komin upp í 76 frá því að yfirstandandi sókn Ísraelshers á Gasa hófst.

Herskáir Palestínumenn héldu eldflaugaárásum sínum á Ísrael áfram í morgun þar sem viðvörunarsírenur hafa hljómað í bæjum sunnarlega í landinu.

Öryggisráðið kemur saman

Á vef ísraelska miðilsins Haaretz segir að Netanyahu hafi rætt við erlenda ráðamenn í gær og hafi þeir allir sýnt Ísraelsmönnum skilning og stuðning að sögn forsætisráðherrans. Ræddi hann meðal annars við Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Angelu Merkel Þýskalandskanslara og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Á hann að hafa sagt þeim að ekkert ríki heims geti setið undir stöðugum eldflaugaárásum og að Hamas-liðar væru sekir um tvöfalda stríðsglæpi, bæði með því að ráðast á ísraelska borgara og að nota óbreytta borgara Gasastrandarinnar sem mannlega skildi. Kenndi hann Hamas um fall óbreyttra borgara á Gasa.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur boðað fund þar sem ræða á ástandið í Ísrael og á palestínsku heimastjórnarsvæðunum.

Forsætisráðherrann átti símafundi með erlendum ráðamönnum í gærkvöldi.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×