Skoðun

Nei við miðlægu eldhúsi fyrir grunn- og leikskóla

Gunnar Svanberg Bollason skrifar
Nýlega birtist forsíðufrétt þess efnis að Reykjavíkurborg hygðist skoða uppsetningu á miðlægu eldhúsi fyrir grunn- og leikskóla borgarinnar. Samkvæmt fréttinni er markmiðið fyrst og fremst að ná fram hagræðingu í rekstri. Í umfjölluninni er vitnað í Skúla Helgason, formann skóla- og frístundasviðs, en hann segir að erfitt sé að ráða starfsfólk í núverandi mötuneyti og að mörg mötuneyti þarfnist endurnýjunar eða betra rýmis.

Þarna nefnir Skúli vandamál sem hafa lengi verið augljós og hefði þurft að taka á fyrir löngu. Það að úthýsa matreiðslunni í miðlægt verksmiðjueldhús úti í bæ, sem keyrir matinn í hitabökkum út í skólana, er hins vegar ekki rétta lausnin. Ef stjórnvöld í borginni vilja bjóða upp á góðan mat handa börnum og starfsfólki verður það best gert með fagmennsku og góðri aðstöðu í hverjum skóla fyrir sig. Til þess að svo megi verða þarf að bæta mönnun og starfsaðstæður þeirra sem sinna þjónustunni eins og Skúli segir sjálfur.

Foreldrar, kennarar og skólastjórnendur vita að aðgengi barna að hollum og góðum mat er grunnforsenda fyrir velferð og vellíðan í leik og starfi barna. Krafa skólasamfélagsins hefur ætíð verið að bæta hollustu og gæði mötuneyta í skólum. Þetta skilja stjórnmálamenn í aðdraganda kosninga en fljótlega eftir kosningar fara augun að beinast að Excel-skjölum í stað bættrar þjónustu.

Ég skora á fulltrúa borgarinnar á skóla- og frístundasviði, jafnt stjórnmálamenn sem embættismenn, að standa vörð um uppbyggingu á góðum mötuneytum í hverjum og einum skóla. Einnig skora ég á skólasamfélagið allt að halda áfram að gera kröfur um bestu mögulegu mötuneytisþjónustu fyrir nemendur. Börnin okkar eiga skilið annað og betra en fjöldaframleiddan verksmiðjumat sem hendist um í bílum í hitabökkum löngu áður en hann er framreiddur.




Skoðun

Sjá meira


×