Körfubolti

NBA: Sjö frá Curry, sjö frá Klay og sjö í röð hjá Golden State Warriors | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skvettubræðurnir Stephen Curry og Klay Thompson voru báðir í stuði fyrir utan þriggja stiga línuna í sigri Golden State Warriors á Flórída í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Þetta var hinsvegar afar vandræðaleg nótt fyrir lið Los Angeles Lakers og þetta var nótt Eric Bledsoe hjá Phoenix Suns.

Golden State Warriors vann 118-98 sigur á heimamönnum í Orlando Magic eftir að hafa verið vandræðum í fyrri hálfleiknum. Stephen Curry og Klay Thompson skoruðu báðir sjö þriggja stiga körfur í leiknum. Þetta var sjöundi sigur Golden State liðsins í röð.

Stephen Curry hitti úr 7 af 13 þriggja stiga skotum sínum og endaði með 27 stig en Klay Thompson hitti úr 7 af 9 þriggja stiga skotum sínum og skoraði 21 stig.



Golden State Warriors lenti ellefu stigum undir í fyrri hálfleik og það var jafnt í hálfleik, 50-50. Stephen Curry skoraði fjóra af þristunum sínum og alls 14 stig í þriðja leikhlutanum sem Warriors vann 42-24 og stakk af.

Kevin Durant skoraði 15 stig fyrir Golden State liðið og Zaza Pachulia var með 14 stig. Elfrid Payton var stigahæstur hjá Orlando Magic með 23 stig.



Dallas Mavericks fór illa með Los Angeles Lakers og vann 49 stiga sigur, 122-73. Þetta er versta tap Lakers í sögunni. Lakers-liðið var ekki að tapa svona stórt á móti einu besta liði deildarinnar heldur á móti Dallas sem hefur unnið einum leik færra en Lakers á tímabilinu.

Justin Anderson skoraði 19 stig á 16 mínútum fyrir Dallas og Seth Curry, yngri bróður Steph, var með 14 stig. Dirk Nowitzki var einn af þremur hjá Dallas með 13 stig í þessum leik en hinir voru Wesley Matthews og Deron Williams.





Eric Bledsoe átti svakalega leik í endurkomusigri Phoenix Suns á útivelli á móti Toronto Raptors. Suns-liðið vann leikinn með tólf stigum, 115-103, eftir að hafa unnið fjórða leikhlutann 33-18.

Eric Bledsoe var með 40 stig og 13 stoðsendingar í leiknum og Devin Booker bætti við20 stigum. DeMar DeRozan skoraði 22 stig fyrir Toronto sem tapaði sínum þriðja leik í röð.



Karl-Anthony Towns, nýliði ársins á síðasta tímabili, var með fantaleik í 111-108 sigri Minnesota Timberwolves á Denver Nuggets. Towns endaði leikinn með 32 stig, 12 fráköst, 7 stoðsendingar og 4 varin skot, Andrew Wiggins skoraði 24 stig og Shabazz Muhammad var með 20 stig. Gary Harris skoraði mest fyrir Denver eða 22 stig.



Úrslit í leikjum NBA-deildarinnar í nótt:

Dallas Mavericks - Los Angeles Lakers    122-73    

Orlando Magic - Golden State Warriors    98-118

Toronto Raptors - Phoenix Suns    103-115    

Minnesota Timberwolves - Denver Nuggets 111-108



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×