Erlent

Nauðgarar falsa söguna með samfélagsmiðlum

Samúel Karl Ólason skrifar
Þeim tilvikum fer fjölganid í Bretlandi þegar nauðgarar reyna að hafa áhrif á gang rannsókna, eða koma í veg fyrir þær, með samfélagsmiðlum.
Þeim tilvikum fer fjölganid í Bretlandi þegar nauðgarar reyna að hafa áhrif á gang rannsókna, eða koma í veg fyrir þær, með samfélagsmiðlum. Vísir/Getty
Nauðgarar eru í auknu mæli farnir að nota samfélagsmiðla, eins og Facebook og Twitter, til að draga úr trúverðugleika fórnarlamba sinna og að afvegaleiða rannsóknir. Þetta kom fram á ráðstefnu lögregluþjóna og saksóknara í Bretlandi á miðvikudaginn.

Ein aðferðin sem lýst var á ráðstefnunni var að nauðgarar hafi samband við fórnarlömb sín og breyti sögunni, með því að senda vinaleg skilaboð eða jafnvel þakki þeim fyrir samfarirnar. Samkvæmt Guardian geta verjendur notað sér slík gögn til að draga úr trúverðugleika fórnarlambanna.

Síðustu tvö ár hefur orðið 30 prósent aukning í nauðgunarmálum sem fara fyrir dómara. Á ráðstefnunni var það rakið til aukinnar umfjöllunar um nauðganir og kynferðisglæpi. Þar að auki virðast fórnalömb nauðgara hafa meiri trú á því að sögum þeirra sé trúað.

Þrátt fyrir þá aukningu kom fram á ráðstefnunni að allt að 80 prósent nauðgana í Bretlandi séu ekki kærðar. Það kom fram í máli Martin Hewitt, æðsta lögreglumanns Bretlands, þegar kemur að nauðgunum og kynferðisglæpum.

Á vef Mirror segir að nýjar starfsreglur hafi verið kynntar varðandi rannsóknir á nauðgunum. Þeim er ætlað að rannsóknin snúi í meira mæli að meintum gerenda, frekar en fórnarlambinu. Samkvæmt nýju reglunum þurfa þeir sem sakaðir eru um nauðgun að sanna að kynlíf hafi verið með samþyki allra aðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×