Erlent

NASA segir sjávarstöðu hækka

Samúel Karl Ólason skrifar
„Fólk þarf að átta sig á því að plánetan er ekki bara að breytast. Hún hefur breyst.“
„Fólk þarf að átta sig á því að plánetan er ekki bara að breytast. Hún hefur breyst.“ Vísir/AFP
Yfirborð sjávar hefur hækkað um átta sentímetra á 23 árum. Sú hækkun er tilkomin vegna hækkandi hita sjávar, bráðnun hafíss og bráðnun jökla. Þetta eru niðurstöður rannsóknar Geimvísindastofnunnar Bandaríkjanna þar sem mælingar úr gervihnöttum voru skoðaðar.

Ekki er þó hægt að yfirfæra þessar niðurstöður á allan heiminn. Á sumum svæðum hafði hækkunin verið allt að 25 sentímetrar og öðrum hafði hún lækkað. Við vesturströnd Bandaríkjanna til dæmis.

Árið 2013 spáði sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna að sjávarstaða myndi hafa hækkað um 30 til 90 sentímetra við lok þessarar aldar. Samkvæmt niðurstöðum NASA mun hækkun sjávar vera ofarlega innan þeirrar marka.

Í samtali við Reuters fréttaveituna segir vísindamaðurinn Steve Nerem að yfirborð sjávar hækki nú hraðar en það gerði fyrir 50 árum. Þar að auki sé líklegt að ástandið muni versna í framtíðinni.

„Fólk þarf að átta sig á því að plánetan er ekki bara að breytast. Hún hefur breyst,“ segir Tom Wagner, vísindamaður NASA.

Vísindamaðurinn Michael Freilich sagði að lágliggjandi svæði eins og Flórída væru sérstakalega viðkvæm gagnvart hækkandi sjávarstöðu. „Í dag valda flæðir reglulega um götur Miami á háflóði um vorin. Það gerðist ekki fyrir einungis nokkrum áratugum.“ Hann bætti við að um 150 milljónir manna búi nú á svæðum sem eru undir 90 sentímetrum yfir sjávarborði.

Vísindamennirnir telja að um einn þriðji hækkunarinnar sé tilkominn vegna hækkandi sjávarhita, þar sem vatn þenst út þegar það verður heitara. Annar þriðjungur er tilkominn vegna bráðnunar hafíss og síðasti þriðjungurinn vegna bráðnunar jökla.

Frekari upplýsingar um rannsóknina má sjá á vef NASA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×