Enski boltinn

Nærri þriggja áratuga dvöl Giggs hjá Man Utd lokið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giggs er á förum frá félaginu sem hann hefur eytt síðustu 29 árum hjá.
Giggs er á förum frá félaginu sem hann hefur eytt síðustu 29 árum hjá. vísir/epa
Ryan Giggs er farinn frá Manchester United eftir 29 ára dvöl hjá félaginu. Þetta kemur fram á vef BBC.

Giggs var aðstoðarþjálfari Louis van Gaal hjá United og átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.

Rui Faria tekur væntanlega við starfi Giggs en hann hefur starfað lengi með José Mourinho, nýráðnum knattspyrnustjóra United.

Giggs er sagður hafa verið óánægður með að fá ekki stjórastarfið hjá United þegar Van Gaal var látinn fara í vor en stjórnarmenn félagsins veðjuðu frekar á Mourinho.

Enginn leikmaður hefur leikið fleiri leiki fyrir United og Giggs en hann vann allt sem hægt var að vinna á löngum og farsælum ferli hjá félaginu.

Giggs stýrði United í síðustu fjórum leikjum tímabilsins 2013-14 eftir að David Moyes var rekinn. Tveir þeirra unnust, einn tapaðist og einn endaði með jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×