Erlent

Myrtu óbreytta borgara sér til skemmtunar

Tveir hinna ákærðu.
Tveir hinna ákærðu. MYND/AP
Bandarískur hermaður hefur viðurkennt að hafa verið meðlimur í hópi sem myrti almenna borgara í Afganistan sér til skemmtunar. Hermaðurinn, hinn 23 ára gamli Jeremy Morlock, hefur borið fyrir herrétti að hann hafi ásamt nokkrum félögum sínum í hernum, sviðsett átök til þess að eiga auðvelt með að drepa saklausa menn sem urðu á vegi þeirra.

Að minnsta kosti þrír óvopnaðir afganskir menn voru myrtir á þennan hátt. Morlock ber fyrir rétti að hann og félagar hans hafi litið á þetta sem nokkurs konar íþrótt eða skemmtun. Málið hefur vakið mikla reiði um heim allan en alls eru fimm hermenn ákærðir í málinu. Þýska blaðið Der Spiegel birti á dögunum myndir af mönnunum þar sem þeir stilla sér sigri hrósandi upp við hlið hinna látnu eins og um veiðiferð hafi verið að ræða. Sumir hermannanna tóku sér minjagripi um morðin og meðal annars fannst hauskúpa hjá einum þeirra.

Morlock sér nú fram á að eyða að minnsta kosti 24 árum í fangelsi en hann á þó möguleika á reynslulausn eftir sjö ár. Það kemur til vegna samkomulags sem hann gerði við saksóknarann en hann hefur fallist á að bera vitni gegn félögum sínum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×