Sport

Murray segir fyrrverandi þjálfara sinn ekki hafa hætt vegna framkomu hans á vellinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Murray og Mauresmo eru hætt að starfa saman.
Murray og Mauresmo eru hætt að starfa saman. vísir/getty
Skoski tenniskappinn Andy Murray þvertekur fyrir að honum og fyrrverandi þjálfara hans, Amélie Mauresmo, hafi sinnast.

Fyrr í mánuðinum hætti Mauresmo sem þjálfari Murrays eftir tveggja ára samstarf. Í nýlegu viðtali við L'Equipe ýjaði Mauresmo svo að því að það hefðu verið erfiðleikar í samstarfinu við Skotann.

„Andy er flókinn persónuleiki. Hann er allt öðruvísi inni á vellinum en hann er dags daglega. Það getur verið ruglingslegt,“ sagði Mauresmo í viðtalinu.

„Mér fannst ég ekki getað hjálpað honum lengur og samstarf okkar væri komið á endastöð.“

Murray segir hins vegar að það hafi ekki verið erfitt að starfa með Mauresmo.

„Þetta er ekki ástæðan fyrir því að við hættum að starfa saman. Okkar samband er gott,“ sagði Skotinn sem hefur unnið tvö risamót á ferlinum. Murray segir þau Mauresmo hafa skilið í góðu.

„Þeir sem segja við höfum rifist er að ljúga. Við töluðum bara rólega saman. Það er ekki satt að við höfum hætt samstarfinu út af framkomu minni á vellinum.“

Murray á enn eftir að finna sér nýjan þjálfara en meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við stöðuna er Ivan Lendl, fyrrverandi þjálfari Skotans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×