Enski boltinn

Moyes vildi fá meiri tíma til að byggja upp lið á Old Trafford

Tómas Þór Þórðarson skrifar
David Moyes er atvinnulaus.
David Moyes er atvinnulaus. Vísir/Getty
David Moyes, sem rekinn var út starfi knattspyrnustjóra Manchester United í gær, er svekktur með að hafa ekki fengið meiri tíma til að byggja upp lið á Old Trafford.

Skotinn hefur ekki tjáð sig opinberlega eftir brottreksturinn í gær en Sky Sports segist hafa heimildir fyrir þessu.

Moyes sættir sig við að brottreksturinn hafi komið til vegna slaks árangurs liðsins en það er sem stendur í sjöunda sæti deildarinnar, á ekki möguleika á Meistaradeildarsæti og mun enda með fæst stig í sögu félagsins í úrvalsdeildinni.

Sagt er að sumir leikmenn United hafi átt erfitt með að aðlagast breytingunum eftir að Sir Alex Ferguson hætti og þá hafi Moyes ekki náð til leikmannanna eins og forveri sinn.

Moyes er sagður, samkvæmt heimildum Sky, hafa verið ánægður með það sem hann sá á æfingasvæðinu en fannst vanta að leikmenn sýndu sömu gæði í leikjum og árangurinn eftir því.

Skotanum einnig gekk illa að fá til sín leikmenn síðasta sumar og nú segja heimildamenn Sky að Manchester United hafi reynt að fá til sín mun fleiri leikmenn en komust í fréttirnar. Erfiðlega hafi þó gengið að lokka bestu leikmenn álfunnar til Manchester.

Eftirmaður Moyes er sagður fá 150 milljónir punda til leikmannakaupa í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×