Enski boltinn

Mourinho: Zlatan er þessi stóri persónuleiki sem United vantaði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan er stór karakter.
Zlatan er stór karakter. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að fá Zlatan Ibrahimovic til félagsins hafi verið gríðarlega mikilvægt því félaginu skorti þessa stóru persónuleika sem komu United á toppinn í ensku úrvalsdeildinni.

Manchester United reynir nú að komast aftur í baráttuna um enska meistaratitilinn undir stjórn Mourinho en þó liðið sitji utan meistaradeildarsætis er það enn í baráttunni um Evrópudeildartitilinn og er búið að vinna deildabikarinn.

United-liðið er ekki búið að tapa í deildinni síðan í október en Mourinho viðurkennir að hann hafi þurft að aðlagast nýju umhverfi og því var mikilvægt að fá mann eins og Zlatan inn í hópinn.

„Manchester United er ekki lengur með þessa stóru persónuleika eins og Ryan Giggs, Paul Scholes og Roy Keane. Wayne Rooney og Michael Carrick eru enn þá til staðar en þeir eru síðustu andlit þessarar kynslóðar. Nú er nýr hópur sem þarf að aðlagast,“ segir Mourinho í viðtali við France Football.

„Þess vegna var mikilvægt fyrir mig að fá Zlatan. Þrátt fyrir að vera ekki enskur og þekkja ekki hefðir félagsins hefur hann persónuleikann til að vera eitthvað miklu meira,“ segir José Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×