Enski boltinn

Mourinho: Ungir leikmenn í dag eru ekki karlmenn heldur krakkaormar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho er með nokkra krakkaorma í liðinu.
José Mourinho er með nokkra krakkaorma í liðinu. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir fótboltamenn minna þroskaða nú til dags en þeir voru fyrir áratug síðan. Hann segir umhverfi þeirra ekki til fyrirmyndar.

Mourinho er búinn að þjálfa í 20 ár og stýrt sumum af bestu leikmönnum heims hjá Chelsea, Inter, Real Madrid og Manchester United. Tímarnir hafa breyst þegar kemur að ungum leikmönnum að hans mati og er hegðun þeirra allt öðruvísi en þegar hann mætti til dæmis til Chelsea árið 2004.

„Ég hef þurft að aðlagast nýjum heimi,“ segir Mourinho í viðtali við franska fótboltatímaritið France Football.

„Þegar ég kom til Chelsea vann ég með 23 ára gömlum strák sem heitir Frank Lampard. Hann var þá orðinn fullorðinn karlmaður sem hugsaði bara um fótbolta, vinnuna og að sinna starfi sínu sem atvinnumaður. Strákar sem eru 23 ára í dag eru bara börn.“

„Í dag kalla ég þá stráka en ekki menn því mér finnst þetta bara vera krakkaormar. Umhverfið í kringum þá er heldur ekkert að hjálpa þeim né mér í mínu starfi.“

„Þessu hef ég þurft að venjast. Fyrir tíu árum var enginn leikmaður með farsíma í búningsklefanum. Þannig er það ekki í dag. Maður verður að sætta sig við þetta því ef maður berst á móti svona hlutum sendir maður sjálfan sig aftur á steinöld,“ segir José Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×