Enski boltinn

Mourinho: Mata er mér mikilvægari hjá United en hann var hjá Chelsea

José Mourinho þarf á Juan Mata að halda hjá United.
José Mourinho þarf á Juan Mata að halda hjá United. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir Juan Mata, leikmann liðsins, henta United-liðinu mun betur í dag en Spánverjinn gerði þegar hann spilaði undir stjórn Mourinho hjá Chelsea.

Mata var tvisvar sinnum í röð valinn besti leikmaður Chelsea að mati stuðningsmanna en Mourinho seldi hann til United í janúar 2014 fyrir 37 milljónir punda. Því var haldið fram í allt sumar að Mata ætti sér enga framtíð á Old Trafford eftir að Mourinho kom en annað hefur komið á daginn.

Mata hefur spilað frábærlega fyrir United en liðið vann þrjá fyrsti leiki tímabilsins með hann í liðinu og komst aftur á sigurbraut um leið og Spánverjinn var settur aftur í byrjunarliðið.

„Í fyrsta lagi þá seldi ég hann ekki. Það er ekki mitt starf að kaupa og selja leikmenn. Mitt hlutverk er að þjálfa og ráðleggja stjórninni í kaupstefnu hennar,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi í Úkraínu þar sem United á fyrir höndum leik gegn Zorya í Evróupdeildinni annað kvöld.

„Í öðru lagi þá bað Juan um að fara. Þegar leikmaður biður um að fara þarf maður ekkert að hugsa sig tvisvar um. Juan var bara hver annar leikmaður í verkefninu hjá Chelsea en Juan í verkefninu hjá Manchester United er allt annað dæmi,“ sagði José Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×