Innlent

Mjög hlynntur náttúrupassa ráðherra en á móti gistináttagjaldi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Friðrik Pálsson, hótelhaldari á Hótel Rangá
Friðrik Pálsson, hótelhaldari á Hótel Rangá Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson.
„Ég er mjög hlynntur náttúrupassa ráðherra, því ég tel að við eigum að gefa út náttúrupassa og að allir sem koma til landsins kaupi hann. Ég tel að þeir muni gera það með ánægju, enda sé það ljóst, að þeir fjármunir sem fyrir hann fást renni óskiptir í sjóð, sem hafi það skýrt skilgreinda verkefni að stuðla að náttúruvernd og uppbyggingu ferðamannastaða“, segir Friðrik Pálsson, hótelhaldari á Hótel Rangá og fyrrverandi stjórnarmaður í Samtöku ferðaþjónustunnar (SAF) þegar hann var spurður hvernig honum litist á ákvörðun Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ráðherra ferðamála um náttúrupassa, sem verður kynntur í frumvarpi í ríkisstjórn á föstudaginn.

 

„Ég veit ekki hvernig nákvæmlega ráðherra hyggst útfæra málið á þessu stigi, en við hljótum að skoða frumvarpið með opnum huga þegar það kemur fram.  Ferðaþjónustan hefur árum saman reynt að koma sér saman um einhverja leið án árangurs.  Ég var og er á móti gistináttagjaldi sem ég tel ósanngjarnt, en SAF telur eftir ítarlega skoðun að það sé illskásti kosturinn, og ég virði þá skoðun þeirra, þó ég sé henni ekki sammála“, bætir Friðrik við.

 

Lágt gjald í umhverfissjóð

Friðrik segir að Íslendingar eigi að lýsa því yfir með stolti að Ísland sé ævintýraeyja, sem býr yfir einstakri og afar viðkvæmri náttúru og að landið innheimti lágt gjald af öllum sem koma til landsins og að það gjald renni í umhverfissjóð sem hafi tiltekin skilgreind verkefni til náttúrverndar og uppbyggingar ferðamannastaða. 

„Af viðtölum við fjölda ferðamanna tel ég víst að því yrði vel tekið.  Svo virðist sem samningsaðilar okkar m.a. í Shengen samstarfinu muni líta á það sem landamæragjald og leggjast gegn því.  Þá þarf að vinna því fylgi með því að sannfæra menn þar á bæ um að hér sé um náttúruverndargjald að ræða en ekki landamærahindrun, það getur tekið tíma“, segir Friðrik Pálsson.


Tengdar fréttir

Nýr náttúrupassi

Nýtt frumvarp um Náttúrupassa verður kynnt í ríkisstjórn á næstu dögum. Innheimta á eitt gjald og Íslendingar og erlendir ferðamenn greiða það sama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×