Erlent

Misstu sjónina í óreyndri stofnfrumumeðferð

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrjár konur sem fóru í stofnfrumummeðferð sem ekki hefur verið sýnt fram á að virki í Flórída misstu sjónina eftir að frumum var sprautað í augu þeirra. Læknastofan hafði skráð meðferðina sem tilraunameðferð á opinberri vefsíðu.

Fjallað er um mál kvennanna í grein í læknaritinu New England Journal of Medicine. Þær eru á áttræðis- og níræðisaldri. Meðferðin var auglýst gegn kölkun í augnbotnum sem er algengasta orsök blindu hjá eldra fólki.

Þar kemur jafnframt fram að hundruð læknastofa starfi í Bandaríkjunum sem bjóða upp á stofnfrumumeðferðir sem ekki hefur verið sýnt fram á að virki gegn alls kyns kvillum og sjúkdómum eins og gigt, einhverfu og heilablóðföllum.

Stofnfrumurnar sem voru notaðar á konurnar voru fullvaxnar. Talið er að hægt verði að nýta slíkar frumur við meðferðir á fólki í framtíðinni en ekki hefur enn verið sýnt fram á virkni þeirra að því er kemur fram í frétt NPR.

Höfundar greinarinnar benda hins vegar einnig á tækifærin sem felast í stofnfrumumeðferðum sem gerðar eru á viðurkenndan hátt.

Þannig segir greinin einnig frá meðferð sjúklings við sama kvilla í Japan. Sjóntap hans stöðvaðist eftir að hann fékk meðferð með annars konar stofnfrumum en konurnar í Flórída fengu.

Það var í fyrsta skipti sem fjölhæfar stofnfrumur (iPS) voru notaðar til að meðhöndla sjúkdóm í manneskju. Munurinn á meðferðunum tveimur var að sú japanska hafði verið þrautreynd áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×