Erlent

Minnst 50 féllu í loftárás á flóttamannabúðir í Nígeríu

Samúel Karl Ólason skrifar
Rauði krossinn segir hjálparstarfsmenn vera meðal hinna látnu.
Rauði krossinn segir hjálparstarfsmenn vera meðal hinna látnu. Vísir/AFP
Talið er að allt að hundrað hafi fallið í loftárás á flóttamannabúðir í Nígeríu í dag og fjölmargir eru særðir. Flugherinn segir árásina hafa verið slys, en flugmaðurinn hélt að hann væri að gera árás á vígamenn hryðjuverkasamtakanna Boko Haram. Árásin var gerð í norðurhluta landsins, við landamæri, Kamerún, þar sem her Nígeríu á í „lokabaráttunni“ gegn Boko Haram, eins og herinn kallar það.

Rauði krossinn segir hjálparstarfsmenn vera meðal hinna látnu. Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu hefur lýst yfir sorg sinni vegna árásarinnar og kallað eftir ró á meðan málið er rannsakað. Samkvæmt BBC er þetta líklega í fyrsta sinn sem yfirvöld í Nígeríu viðurkenna mistök sem þessi.

Herinn segir að kallað hafi verið eftir loftárás vegna fregna um að vígamenn hafi verið að safnast saman á svæðinu. Þeir segja að herinn myndi aldrei gera árás á borgara vísvitandi.

Boko Haram hafa um árabil reynt að stofna Íslamskt ríki á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×