Viðskipti innlent

Minni bjartsýni þó búist sé við auknum hagnaði

ingvar haraldsson skrifar
Mat stjórnenda á stöðunni nú er betri en þeir búast við að hún verði eftir sex mánuði.
Mat stjórnenda á stöðunni nú er betri en þeir búast við að hún verði eftir sex mánuði. vísir/vilhelm
Bjartsýni stjórnenda í íslensku atvinnulífi fer minnkandi samkvæmt nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins. Stjórnendur telja almennt að staðan á nú sé betri en hún verði eftir sex mánuði og hefur það ekki gerst síðan í desember 2007.

Þrátt fyrir það býst 40% stjórnenda við að hagnaður, sem hlutfall af veltu, verði meiri á þessu ári en árið 2014, helmingur að hann verði óbreyttur en rúmlega 10% að hann verði minni. Hlutfall þeirra sem telja að hagnaður aukist hefur hækkað töluvert frá síðustu könnun.

Stjórnendur vænta þess að framlegð næstu sex mánuði einnig aukast á árinu.  Þannig búast 40% við því að framlegð aukist, helmingur að hún standi í stað og rúm 10% að hún minnki. Framlegð hefur aukist á síðustu sex mánuðum að mati stjórnendanna.

Samkvæmt könnuninni 40% stjórnenda telja að aðstæður verði betri eftir sex mánuði, tæplega helmingur að þær verði óbreyttar, en rúmlega 10% að þær verði verri.

Í öllum atvinnugreinum telja fleiri stjórnendur núverandi stöðu efnahagsmála vera góða en slæma og er matið jákvæðast í verslun og þjónustu en lakast í byggingarstarfsemi og iðnaði.

Búast við meiri verðbólgu og hærri stýrivöxtum

Meðal niðurstaða könnunarinnar eru að nægt framboð sé á starfsfólki en helst skortir það í flutningum og ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Stjórnendur gera ráð fyrir lítilsháttar fjölgun starfsmanna næstu sex mánuði.

Þá er búist við að fjárfestingar muni aukast meira á árinu en undanfarin ár. Að jafnaði vænta stjórnendur 3,0% verðbólgu næstu tvö árin en aðeins 1,2% hækkun á vörum og þjónustu eigin fyrirtækja næstu sex mánuði. Stjórnendur búast við að gengi krónunnar veikist um 2% á næstu 12 mánuðum og að stýrivextir Seðlabankans hækki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×