Innlent

Milljónir barna munu líða fyrir vannæringu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stjórnvöld ríkja í heiminum þurfa að fara að taka á málum varðandi fæðuöryggi.
Stjórnvöld ríkja í heiminum þurfa að fara að taka á málum varðandi fæðuöryggi. mynd/ afp.
Áætla má að 450 milljónir barna í heiminum muni líða fyrir líkamlegan og andlegan vanþroska af völdum vannæringar á næstu 15 árum fari stjórnvöld ríkja í heiminum ekki að standa við skuldbindingar sínar um að sporna við matvælakreppu. Þetta eru niðurstöður skýrslu Barnaheilla - Save the Children sem kynnt verður í dag.

Í skýrslunni segir að vannæring sé undirliggjandi ástæða þriðjungs alls barnadauða í heiminum, en þetta málefni hafi ekki fengið sömu athygli og fjármagn og til dæmis alnæmi eða malaría. Það þýði að á meðan tekist hafi að draga úr barnadauða af völdum malaríu um þriðjung frá árinu 2000, hafi tölur um vannæringu barna í Afríku einungis lækkað um innan við 0,3%.

Vannæring barna verður umræðuefna á málþingi sem haldið er á facebook. Umræðan hefst kl. 14.00 og meðal þátttakenda eru Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum, Ásdís Thoroddsen kvikmyndagerðarkona og leikskáld, Egill Helgason fjölmiðlamaður, Gunnar Salvarsson, kynningarstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, Helga Vala Helgadóttir héraðsdómslögmaður, Katrín Oddsdóttur, stjórnarráðsliði og héraðsdómslögmaður, Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verk-og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og Kristrún Heimisdóttir, fyrrum aðstoðarmaður utanríkisráðherra og lögfræðingur. Umræðan er öllum opin og eru gestir hvattir til að deila viðburðinum og bjóða sem flestum með sér.

Jón Kalmann Stefánsson rithöfundur skrifar opið bréf til Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra vegna málsins í dag. Þar bendir hann á að á hverri klukkustund látast 300 börn af völdum vannæringar í heiminum. Það sé eins og hvert einasta barn í 25 leikskólum Reykjavíkur myndi deyja í dag.

Smelltu hér til að sjá málþingið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×